top of page

Tenglar

Vefsíður á íslensku með fróðleik um paleo:

  • Eldum rétt útskýrir á stuttan og einfaldan hátt hvað paleo mataræði er. Fyrirtækið býður upp á matarpakka fyrir paleo mataræði. Þetta getur verið sniðugt fyrir þá sem vilja fá fleiri hugmyndir um hvað er hægt að elda.

  • Mataræði.is er vefur sem hjartalæknirinn Axel F. Sigurðsson heldur úti. Þar fjallar hann um nokkrar tegundir af mataræði og þar á meðal paleo mataræðið. 

  • Á Heilsutorg.is er gagnrýnin grein um paleo mataræðið. Greinin er skrifuð af Geir Gunnari Markússyni, næringarfræðingi hjá NLFÍ. Hann bendir á ýmsa annmarka sem paleoistar vilja halda fram en bendir einnig á það góða við paleo mataræðið. Ég er hjartanlega sammála honum þegar hann segir "Verum gagnrýnin og upplýst. Forðastu einstrengislega ofsatrúarhugsun. Vertu gagnrýninn. Leitaðu sannana og upplýsinga."

  • Cafe Sigrún hefur líka tekið saman hugleiðingar sínar um paleo mataræði. Verst finnst mér að samkvæmt mínum skilningi á paleo fer hún ekki með rétt mál varðandi margt. T.d. talar hún um að skv. paleo eigi að borða feitt kjöt og smjör og jafnvel rjóma. Ekkert af þessu rímar við það sem ég hef lesið, en til eru útgáfur af paleo mataræði þar sem fitumiklar, gæða mjólkurvörur eru inni og nefnist slíkt mataræði "primal". Sigrún segist byggja sínar hugleiðingar mest á einni vefsíðu og gagnrýnir að sú síða sé einnig að selja bók og annan varning tengdan paleo mataræði. Því er ég sammála henni með (þ.e. hún gagnrýnir að verið sé að reyna að selja hugmyndafræði) og kannski hefði hún átt að leita sér frekari upplýsinga á fleiri stöðum áður en hún myndaði sér skoðun. Þó bendir hún á nokkra kosti paleo mataræðis/lífsstíls.

​

Ef þú ert sleip/-ur í enskri tungu má finna aragrúa af fróðleik um þennan lífsstíl. Hér eru einungis örfáar síður sem ég hef kynnst lítillega:

  • Heimasíða Dr. Loren Cordain, læknis, The Paleo Diet er uppfull af fróðleik. Dr. Cordain er oft talinn vera sá sem kom paleo lífsstíl á kortið. Hann hefur gefið út vinsælar og þekktar bækur og gefið út fjöldan allan af ritrýndum fræðigreinum um málið. Á heimasíðu hans má nálgast fróðleik, uppskriftir og reynslusögur.

  • Robb Wolf er einn þekktasti talsmaður paleo lífsstíls. Hann heldur úti heimasíðu þar sem má finna alls konar fróðleik og uppskriftir. Bókin hans The Paleo Solution - The Original Human Diet er fyrsta bókin sem ég las um paleo mataræði. Þar útskýrir hann ítarlega hvað gerist í líkamanum þegar við borðum og færir rök fyrir hvers vegna paleo mataræðið er skynsamlegt. Hann skiptir paleo þægilega upp fyrir fólk eftir því hvort það er að leita lausna t.d. vegna þyngdartaps, glúteinóþols, sjálfsofnæmissjúkdóma eða bólgusjúkdóma.

  • Umfjöllun á Wikipedia um paleo mataræði.

​

Uppskriftir. Ég nota mikið Pinterest til að fá hugmyndir að mat og þannig hef ég kynnst þessum síðum:

  • The Paleo Running Momma. Mér finnst þessi síða mjög skemmtileg og mikið af góðum uppskriftum. Ég tengi líka svolítið við þessa, hlaupari og mamma sem reynir að lifa heilbrigðu líferni. Síðan hennar er í blogg stíl, en þó er hægt að leita eitthvað eftir flokkum.

  • The Paleo Grub. Ég hef aðeins notað af þessari síðu, á henni má bæði leita eftir innihaldsefnum og flokkum.

  • Pinterest er hafsjór hugmynda. Skoða þarf samt það sem þar birtist með gagnrýnum augum og lesa uppskriftirnar. Oft koma upp uppskriftir sem henta betur sem LKL eða Whole30 eða jafnvel eru merktar paleo en innihalda eitthvað sem er ekki paleo vænt innihaldsefni. 

bottom of page