top of page

Hvað er paleo?

Í fáum orðum snýst paleo mataræði um að borða mat eins og steinaldarmennirnir borðuðu. Ertu ekki alveg með það á hreinu? Nei? Það er kannski ekkert skrítið en ég skal reyna að útskýra þetta á einfaldan máta og hvernig ég hef ákveðið að fylgja því í mínu lífi.​​​​​​

Steinaldarmennirnir voru ekki búnir að finna upp að rækta korn eða grjón og vinna það. Þeir voru heldur ekki búnir að tileinka sér það að halda húsdýr. Þeir veiddu sér til matar og týndu ávexti, grænmeti, fræ og hnetur. Þarna ertu komin með kjarnann í paleo mataræði.

Fólk spyr mig stundum "Hvað borðar þú eiginlega?" Þegar ég er að reyna að útskýra mataræðið því það fyrsta sem ég segi er e.t.v. það að ég borði ekki brauð, hrísgrjón, mjólkurvörur eða kartöflur. Svarið mitt við þessari spurningu er auðvitað "Bara mat!" Ég veit ekki hvort er auðveldara, að segja hvað á að borða eða hvað á ekki að borða. Í grófum dráttum er það þannig að paleo mataræði snýst um að borða ekki unninn mat, korn, grjón eða aukaefni, en það sem setur smá snúning á þetta er að belgjurtir eru einnig ekki æskilegar.

Hvað eru belgjurtir?

Belgjurtir eru jurtir, ávöxtur þeirra eða fræ sem vaxa í belg. Til belgjurta teljast t.d. alfalfa spírur, baunir, ertur, kjúklingabaunir, linsubaunir, nýrnabaunir, carob, soyabaunir og jarðhnetur. Þetta eru þær algengustu sem við rekumst á hér á Íslandi, en til er fjöldinn allur af öðrum belgjurtum, misalgengum. Sjá ágætan lista yfir belgjurtir hér.

En snúum okkur aftur að kjarna málsins. Paleo mataræði snýst um að borða sem hreinasta fæðu, án aukaefna og án unninna innihaldsefna. Allar korntegundir, grjón og mjólkurmatur er þannig úti. Í staðinn er áhersla á kjöt, fisk, grænmeti, ávexti, hnetur, fræ og ber. Hægt er að nýta sér ýmsa staðgengla fyrir ýmislegt en oft finnst fólki auðveldast að vera ekki að eltast við að halda áfram sama líferni og það fór eftir áður en það skipti yfir í paleo. 

 

Kostir paleo mataræðis

Þeir sem eru fylgjendur og talsmenn paleo mataræðisins segja að mataræði nútímamannsins sé komið svo langt út fyrir það sem maðurinn er fær um að vinna úr. Með því að fylgja þessum lífsstíl megi koma í veg fyrir ýmsa sjúkdóma sem skekja hinn vestræna heim. Ber þar helst að nefna sykursýki, alzheimer, hjartasjúkdóma, sjálfsofnæmissjúkdóma, skjaldkirtilssjúkdóma og ýmsar tegundir krabbameins. 

 

Að auki ber að nefna að margir eiga erfitt með meltingu á þeim matartegundum sem paleo mataræðið vill að við forðumst. Í því liggur sannleikurinn fyrir mig.

Kvöldmáltíðirnar samanstanda þá mest af kjöti eða fiski með grænmeti og/eða ávöxtum. T.d. nautakjöt með sætum kartöflum og steiktu grænmeti, lambakjöt með fersku salati og melónum, fiskur með blómkálshrísgrjónum, fersku grænmeti og sósu o.s.frv.

 

Millimálin eru það sem rekur fólk á gat, en þá er um að gera að prófa sig áfram og finna hvað þér finnst gott. Ég hef bakað brauð úr möndlumjöli með ágætum árangri og á það til í frysti í litlum skömmtum svo ég get tekið út 2 litlar sneiðar í einu. Einnig borða ég meira af ávöxtum en ég gerði áður. Bý mér til hnetumix í staðinn fyrir snakk og hef gert ótal skrítnar en saðsamar samsetningar, eins og t.d. sætkartöflusneiðar með rækjusalati, gúrkusneiðar með túnfisksalati, gulrætur og heimagerða ídýfu, egg á ótal vegu, epli með möndlusmjöri og svo mætti lengi telja. 

 

Paleo snýst ekki um

Margir sem prófa paleo mataræði gera það til að grennast. Það getur virkað vel en paleo snýst ekki um að telja hitaeiningar eða spá í hversu mikið af kolvetnum maður er að innbyrða á móti fitu. Paleo er líkt LKL mataræði að sumu leyti, en mjög ólíkt að öðru. LKL fókusar á hlutfall kolvetni sem þú innbyrðir miðað við fitu á meðan paleo fókusar á að borða hreina fæðu. Það að taka út kornvörur og sykur snýst ekki um kolvetnin, heldur einungis um þá staðreynd að slíkur matur var ekki í mataræði steinaldarmanna og margir telja að slíkt hafi ekki góð áhrif á líf og líkama mannsins. Ég ákvað að skipta yfir í paleo mataræði einungis vegna þess sem læknirinn minn ráðlagði mér og ég fann að ég þurfti að taka þetta skrefinu lengra til að ná árangri fyrir mína líðan. 

 

Hvað get ég notað í staðinn fyrir...?

  • Mjólk í kaffið? - Möndlu- eða kókosmjólk úr fernu.

  • Rjóma í eldamennsku? - Kókosmjólk eða kókosrjóma úr dós.

  • Kaldar sósur? - Heimagerðar sósur úr paleo majonesi og kryddi.

  • Hrísgrjón? - Blómkálshrísgrjón (sjá uppskrift hér).

  • Kartöflur? - Sætar kartöflur.

  • Brauð? - Bakaðu þitt eigið úr möndlumjöli eða jafnvel kókoshveiti.

  • Sætabrauð? - Bakaðu þitt eigið.

  • Nammi? - Hættu að borða nammi! Eða búðu til þitt eigið (sjá æðislega uppskrift að Twix bitum hér, eða að möndlusmjörsbitum hér).

  • Sykur? - Hreint hlynsýróp, kókossykur eða hunang.

  • Pasta? - Kúrbít. Hægt er að kaupa tæki til að skera kúrbít í langar ræmur, þá kallast það "Zoodles" uppá enska tungu. Einnig er hægt að skera kúrbítinn langsum og nota í stað lasagnaplatna í þess háttar rétt.

  • Ost? - Til eru ágætar útgáfur af vegan osti en mín ráð eru: slepptu honum. A.m.k. til að byrja með.

 

Ráðleggingar - hvað er gott að eiga?

Ef þér er alvara með þessu, gerðu það þá heils hugar, það dugar ekkert hálfkák. Að því sögðu má benda á að mismunandi leiðir henta mismunandi fólki. Mér hentaði að gera þetta rólega. Ég var búin að minnka brauð- og pastaát til muna áður en ég byrjaði fyrir alvöru. Ég hafði líka reynslu af því að taka út allar mjólkurvörur. Ég er enn að nota einhverjar vörur sem teljast ekki 100% paleo af því að ég á þær í skápnum. Sumum hentar betur að taka þetta alla leið frá fyrsta degi, losa sig við allt úr skápunum sem samræmist ekki paleo mataræði.

 

Hvaða leið sem þú ferð, mundu að þetta er allt í hausnum á þér og þú þarft að vilja og vera tilbúin til að gera þetta. Spurðu þig "Hver er ávinningurinn fyrir mig?" Er það til að grennast? Er það til að bæta meltinguna, alhliða líðan? Ertu með einhvern sjúkdóm sem þarf að ná tökum á? Þegar þú hefur haldið þig við þetta mataræði í einhvern tíma (að lágmarki 3 vikur) þá langar mig að lofa þér að þú finnur heilmikinn mun en mesta muninn finnur þú e.t.v. ekki fyrr en þú svindlar og borðar eitthvað sem er utan við paleo og þú þarft að taka á afleiðingunum. Athugaðu að þetta er ekki megrunarleið. Þetta er lífstíll sem er kominn til að vera.

Vertu viðbúin/n. Til að byrja með krefst þetta mikils skipulags. Vinndu undirbúningsvinnu. Farðu á netið og leitaðu að uppskriftum. Ef veika hliðin þín er brauð, finndu uppskrift að brauði sem þú treystir þér í að gera. Ef það eru sætindi, finndu uppskriftir að því o.s.frv. Skipuleggðu mat fyrir eina viku í einu, morgunmat, hádegismat, kvöldmat og millimál. Er mötuneyti í vinnunni? Skoðaðu matseðilinn og sjáðu hvort þú getir borðað eitthvað af því en e.t.v. í aðeins breyttri útgáfu. Slepptu kartöflunum, hrísgrjónunum og brauðinu. Hafðu með þér annað meðlæti eða fáðu þér af salatbarnum í staðinn. Skrifaðu niður innkaupalista eftir skipulagninguna og farðu svo í búð þegar þú hefur góðan tíma. Skoðaðu innihald á vörum. Forðastu vörur sem innihalda mjólkurvörur, aukaefni, soya, sykur og kornvörur (hveiti, hafra o.þ.h.). Það mun vera einhver startkostnaður og vörurnar sem þú kemur til með að kaupa eru einhverju dýrari, en það er allt þess virði. Vertu tilbúin/n til að gera tilraunir og að eitthvað muni mistakast en annað mun takast vel. Prófaðu nýtt grænmeti og hafðu fjölbreytt meðlæti.

​

Mikilvægt er líka að nota hyggjuvitið. Gangtu eins langt og þú ert tilbúin/n til að fara. Mitt ráð er samt að þú nærð ekki árangri eða öðlast betri líðan ef þú ferð ekki alla leið (eða alla vega svona 90%!).

​

Þegar til stendur að fara út að borða eða hitta vinina/vinkonurnar þá koma oft upp spurningar um hvað er hægt að gera. Það sama gildir og ég nefndi fyrir ofan: Notaðu hyggjuvitið. Ef stefnan er á matsölustað, reyndu að velja matsölustað þar sem ekki eingöngu er boðið upp á hamborgara eða pylsur. Pantaðu mat af matseðlinum sem er eins nálægt paleo og þú kemst. Það er að segja, t.d. salat, eða kjöt/fisk með grænmeti. Slepptu því að borða franskarnar/kartöflurnar/hrísgrjónin og borðaðu grænmetið eða spurðu hvort hægt sé að fá grænmeti í staðinn. Slepptu sósunni eða biddu um hana til hliðar og borðaðu lítið af henni. Ef borða á í heimahúsi (t.d. þér er boðið í mat eða í afmæli) þá má annað hvort koma með mat með sér, bjóðast til þess að gera hluta af máltíðinni (t.d. eftirréttinn) og/eða borða áður en farið er af stað svo að svengdin sé ekki að bera þig ofurliði og þú endar á því að borða allt það óholla sem þú ætlaðir þér ekki. Þá getur þú valið úr skásta kostinn. Það verður enginn 100% paleo í samfélaginu sem við lifum í og við verðum bara að gera okkar besta. Þetta eru ráð sem ég fór mikið eftir þegar ég tók út mjólkurvörur vegna mjólkuróþolsins míns. Í eitt sinn gleymdi ég að borða fyrir afmælisveislu að degi til og endaði á því að drekka bjór og horfa á hina í afmælinu borða dýrindis kjúklingasúpu... með rjóma!

 

Vertu líka tilbúin/n að elda! Þú kaupir ekki paleo mat á skyndibitastað. 

 

Gott er að eiga:

  • Hnetur (ekki jarðhnetur, notaðu kasjúhnetur, valhnetur eða annað), möndlur, fræ, þurrkaða ávexti (t.d. döðlur og ferskjur) og kókosflögur til að narta í sem snarl á milli mála.

  • Keyptu gott, hreint hlynsýróp (Kirkland hlynsýrópið frá Costco er mjög gott) eða hunang.

  • Eigðu möndlumjöl og kókoshveiti.

  • Kókosolía nýtist vel sem og ólífuolía.

  • Möndlusmjör er nauðsynlegt ætlir þú að "baka" eða búa til sætindi.

  • Kókosmjólk í dós er góð undirstaða í margt. Lestu á innihaldið og reyndu að finna mjólk sem er ekki með mörgum aukaefnum og að innihald kókos sé meira en 75%. Ég hef keypt frá Gestus í Krónunni, í bleikum dósum. Hún er með 86% kókos innihaldi en einhverjum aukaefnum.

  • Bökunarkakó. Þetta er líklega til á mörgum heimilum en engu að síður nauðsynlegt efni í allan bakstur. Skoðaðu innihaldið, sum bökunarkakó innihalda mjólkurvörur.

  • Egg. Ein algengasta morgunverðar máltíð í paleo mataræði eru egg.

  • Möndlu- eða kókosmjólk í fernu. Þetta notar þú í eldamennsku eða út í kaffið. Athugaðu að lesa innihaldið. Mikið af þessari mjólk er með viðbættum sykri.

 

Varaðu þig á:

  • Paleo er ekki megrunarkúr. Það er lífsstíll.

  • Höfrum. Hafrar eru einnig kornvara.

  • Quinoa, byggi og hrísgrjónum. Þetta er allt kornvara sem er ekki talin æskileg í paleo mataræði.

  • Viðbættum sykri. Mikið er um að sykri sé bætt í alls kyns mat. Dæmi um vöru með viðbættum sykri sem kemur fólki alltaf á óvart er t.d. beikon og majones.

  • Glúteinfrítt þýðir ekki endilega paleo. Til er glúteinlaust mjöl sem er samt hveiti eða aðrar kornvörur. 

  • Paleo er ekki lágkolvetna mataræði. Kolvetnin í paleo mataræði koma úr ávöxtum og grænmeti (og að einhverju leyti úr hunangi og/eða hlynsýrópi). Hægt er að aðlaga paleo mataræði að lágkolvetna mataræði með því að takmarka neyslu á þessum vörum. Það gagnast t.d. þeim sem ætla að nota paleo sem leið til að grennast, en það er ekki endilega tilgangur paleo mataræðis.

 

Nú held ég að þú sért tilbúin/n að byrja. Gangi þér vel!

​

bottom of page