top of page

Snakk og ídýfa

Í gær fékk ég óstjórnlega þörf fyrir snakk. Ég er búin að vera að æfa mikið í ræktinni og brenni því trúlega aðeins meiru en áður og líkaminn er að kalla á endurnýjun á tankana.


Ég kíkti inn í ísskáp og úr varð þetta yndislega sætkartöflusnakk og paleo ranch ídýfa/sósa.

Sósan hentar bæði sem ídýfa og sem sósa með mat eða salati. Hún heppnaðist svo vel að ég held að þetta sé ein besta sósa sem ég hef búið til sjálf.


Snakk og ídýfa
 

Innihald

Fyrir sætkartöfluflögur:

1 lítil sæt kartafla eða 1/2 stór

1/4-1/2 bolli ólífuolía

Salt, pipar og annað krydd eftir smekk

Fyrir ranch ídýfu/sósu:

1 bolli Paleo majones (sjá uppskrift hér)

1/4 bolli kókosmjólk (betra að nota úr fernu en úr dós)

1 tsk epla edik

1/2 tsk laukduft

1/2 tsk hvítlauksduft

1 msk ferskt dill eða 1 tsk þurrkað dill

Salt og pipar eftir smekk

Aðferð

Sætkartöfluflögur:

  1. Hitið ofninn í 200°C.

  2. Skerið sætu kartöfluna í örþunnar sneiðar. Ég notaði góðan hníf en trúlega er betra að nota einhvers konar áhald sem sker í þunnar sneiðar.

  3. Setjið sneiðarnar í skál og hellið olíunni saman við. Passið að þekja allar sneiðar í olíu.

  4. Leggið sneiðarnar á bökunarpappír á bökunarplötu í einfaldri röð, passið að láta sneiðarnar ekki skarast.

  5. Stráið salti, pipar og öðru kryddi yfir eftir smekk. Ég notaði laukduft með saltinu og piparnum.

  6. Bakið í ofninum í ca. 25 mínútur eða þar til sneiðarnar eru orðnar stökkar. Ef einhverjar eru enn mjúkar setjið þá eftir í ofninn í nokkrar mínútur enn.

Ranch ídýfa:

  1. Setjið öll innihaldsefnin í skál og blandið vel. Notið meiri kókosmjólk ef sósan er of þykk. Ídýfan þykknar í ísskáp.

  2. Kryddið með salti og pipar eftir smekk.

  3. Geymist í viku í ísskáp.

Studdist við uppsrift að Ranch sósu héðan.

bottom of page