top of page

Fiskibollur

Ég hef ekki fengið fiskibollur í mörg ár og nú var sko kominn tími til að gera eitthvað í því. Ég hef heldur aldrei búið til fiskibollur frá grunni, svo að ég var alveg að renna blint í sjóinn. Stundum langar mann bara í eitthvað gamalt og gott og þessar fiskibollur gáfu "venjulegum" fiskibollum ekkert eftir. Áferðin var flott og bragðið æðislegt. Ég á ekki hakkavél eða aukastykki á hrærivélina mína svo að ég notaðist við matvinnsluvél sem saxar fínt.


Heimagerðar fiskibollur

Það er auðvitað aðeins meiri vinna að gera fiskfarsið sjálfur frá grunni, en við það er maður auðvitað að útiloka öll innihaldsefni sem maður veit ekki hver eru og vill ekki hafa. Ég átti bara rauðlauk en hugsa að ég myndi nota venjulegan hvítan lauk næst. Það hafði ekkert nema góð áhrif á bragðið, en börnunum fannst svolítið skrítið að sjá þessa dökku bita á víð og dreif um bollurnar.


Ég bar að sjálfsögðu sætar kartöflur fram með bollunum og gufusauð einnig spergilkál.


Fiskibollur og meðlæti

Innihald

Fyrir 3

500-600 gr ýsuflök, roðflett og beinlaus

1/2-1 laukur

1 hvítlaukslauf

2 egg

3 msk möndlumjöl

3 msk tapioca sterkja

3 msk kókosmjólk úr fernu (eða önnur mjólk að eigin vali)

salt og pipar


Aðferð

  1. Hakkið fiskinn og setjið í hrærivélaskál.

  2. Hakkið laukinn og hvítlaukinn og blandið saman við fiskinn.

  3. Setjið eggin út í og hrærið saman í hrærivélinni.

  4. Bætið möndlumjöli og tapioca sterkju saman við og hrærið vel.

  5. Hellið mjólkinni út í og blandið saman ásamt salti og pipar.

  6. Deigið á að haldast saman, ef það er of blautt, bætið þá möndlumjöli eða sterkju saman við en ef það er of þurrt, bætið þá mjólk við.

  7. Mótið mátulega stórar bollur með matskeið og steikið á pönnu á báðum hliðum þar til bollurnar eru orðnar fallega brúnar.

  8. Þegar einn skammtur er orðin mátulega brúnn má flytja bollurnar í eldfast mót og setja í 175°C heitan ofn og hita áfram á meðan næsti skammtur er steiktur á pönnunni.

  9. Bollurnar í ofninum ættu að vera tilbúnar þegar seinni skammturinn er orðinn mátulega brúnn á pönnunni.

  10. Bollurnar eru tilbúnar þegar þær eru stífar viðkomu þegar bankað er laust í þær með gaffli eða skeið.

bottom of page