top of page

Möndlusmjörs- og sultubitar

Ég átti von á vinkonum í síðbúinn jólahitting í lok síðustu viku. Hefðin hjá okkur vinkonunum er að hafa Pálínuboð þar sem hver og ein kemur með eitthvað á (hlað)borðið. Þetta er ekki matur heldur snarl/fingramatur. Oft er innihald svona boðs ostar, salöt, kex, nammi og kökur. Eins og sjá má er mjög lítið af þessu paleovænt og hvað þá laktósaóþolsvænt. Ég ákvað því að skella í eitthvað sem ég gæti notið í stað þess að horfa á hinar borða. Úr varð að ég prófaði þessa möndlusmjörs-sultubita sem eru í anda hentusmjörs og sultu samloka eins og vinsælar eru í Bandaríkjunum. Uppskriftin er fengin frá Paleo Running Momma, sem er ein uppáhalds uppskriftasíðan mín.



Bitarnir heppnuðust einstaklega vel og ég varð ekkert smá hrifin af þeim. Ég átti góðan afgang og á þá ennþá í ísskápnum til að lauma mér í eftir matinn. Sultuna má einnig nota í hvað annað sem hugurinn girnist, en hún er þó svolítið þunn. Ég notaði mikið af henni til að blanda saman við kókosjógúrt sem ég var að búa til á sama tíma.



Kannski var enginn annar í boðinu hrifinn af bitunum, en þá á ég bara meira fyrir mig :) Bitarnir minna óneitanlega á hnetusmjör og sultu samlokur og eru því kjörnir fyrir þá sem eru hrifnir af slíku. Möndlusmjörið gerir bitana einstaklega mjúka og jafnvægið milli fitunnar í möndlusmjörinu og sætunnar í sultunni er fullkomið.



Hreint möndlusmjör ofan á gerir svo alveg útslagið og bitarnir verða að himnesku sælgæti í munninum. Ég held ég verði hreinlega að standa upp núna og ná mér í einn, myndirnar eru að gera útaf við mig...


En hér kemur uppskriftin:


Innihald

Fyrir sultuna:

3 bollar frosin jarðarber (eða fersk)

1/2 bolli hlynsýróp (ég notaði tæplega)

Fyrir deigið:

3/4 bollar möndlusmjör + meira til að strá ofan á

3 msk hlynsýróp

3 msk bráðin (ekki heit) kókosolía

1 tsk vanilludropar

1 bolli möndlumjöl

1/4 bolli kókoshveiti

1/4 tsk matarsódi

1/2 tsk salt


Aðferð

Fyrir sultuna:

  1. Setjið jarðarber og hlynsýróp í pott og sjóðið saman, í u.þ.b. 20 mínútur. Maukið jarðarberin eftir því sem sultan sýður.

  2. Kælið sultuna (hún þykknar við kælingu) á meðan deigið er útbúið.

Fyrir botninn:

  1. Hitið ofninn í 175°C og þekið ofnfast mót með bökunarpappír.

  2. Blandið saman möndlusmjöri, hlynsýrópi, vanilludropum og kókosolíu þar til allt er mjúkt og vel blandað.

  3. Blandið möndlumjöli, kókoshveiti og matarsóda saman við þar til deigið verður þykkt og molnar. Látið standa augnablik svo að kókoshveitið geti dregið í sig vökvann.

  4. Þrýstið um 3/4 af deiginu í botninn á ofnfasta mótinu og bakið í 7-8 mínútur.

  5. Takið úr ofninum.

Að lokum:

  1. Dreifið um 1 bolla af sultunni ofan á bakaðan botninn jafnt.

  2. Myljið afganginum af deiginu yfir sultuna.

  3. Setjið smá auka möndlusmjör yfir deigið og bakið í 25 mínútur í viðbót eða þar til deigið verður gullinbrúnt.

  4. Leyfið að kólna áður en deigið er skorið.

  5. Geymist í ísskáp í rúma viku.

bottom of page