top of page

Spaghetti skvass (squash) með kjötsósu

Þá er janúar hafinn í öllu sínu veldi og fjölskyldan ætlar að taka nýja árið með trompi. Unglingurinn (16 ára) á heimilinu ætlar að hreinsa aðeins til í hveiti- og sykurneyslu og táningurinn (13 ára) er kannski líka að stefna í smá breytingar, þó undir meiri stjórn móðurinnar.


Spaghetti skvass með kjötsósu

Í einni af fyrstu verslunarferð ársins rakst ég á spaghetti skvass í Krónunni og ég var fljót að grípa mér eitt og henda í körfuna. Kassastarfsmaðurinn rukkaði mig svo að vísu fyrir gula melónu, hefur sjálfsagt aldrei séð þennan ávöxt áður (já, skvass er ávöxtur en ekki grænmeti). Fyrir ykkur sem þekkið ekki ferlíkið þá segir það nokkuð um útlitið, það er eins og gul melóna. Þau sem ég hef séð á myndum eru þó aðeins stærri en þetta sem var í Krónunni hér á Íslandi var tiltölulega lítið miðað við þau. Það var svo um helgina sem herlegheitin voru elduð og hér kemur lýsingin og uppskriftin af því.


Spaghetti skvass

Ávöxturinn ber þetta nafn, væntanlega, vegna þess hve líkur spaghetti hann verður við eldun. Þá er einnig algengast að sjá fólk nota hann í staðinn fyrir spaghetti í þesslaga rétti. Við höfðum stuttlega áður rætt um hve langt var síðan við höfðum haft hakk og spaghetti í matinn, svo að nú var kjörið tækifæri til að prófa þetta.


Við gerðum kjötsósuna einnig frá grunni og kemur hér því lýsing á því líka. Það er mjög auðvelt að kaupa pasta sósur tilbúnar úr krukku/dós úr búð, en þegar maður les innihaldslýsinguna verður þessi smá aukavinna við að búa hana til sjálfur einhvern veginn léttari.



Eldun skvassins tekur smá tíma og því þarf að byrja tímanlega, en það er ekki mikil vinna og kostirnir margfalt fleiri. Skellum okkur þá í uppskriftina.


Innihald

1 meðalstórt spaghetti skvass

500 gr nautahakk

1 dós af tómötum í dós (athugið að það sé ekki sykur í innihaldslýsingu)

1 lítil dós (70 gr) af tómatpaste

1/4 rauðlaukur, smátt skorinn og steiktur á pönnu þar til karamellaður

grænmeti ef vill, t.d. gulrætur eða paprika

ólífuolía til steikingar

krydd eftir smekk, t.d. timjan, rósmarín, oregano (ca. 1/2 til 1 msk af hverju)

salt og pipar


Aðferð

  1. Skerið skvassið í tvennt langsum og hreinsið fræin úr, t.d. með ísskeið.

  2. Hellið olíu yfir opið og kryddið með salti og pipar.

  3. Snúið skvassinu við (þannig að börkurinn snúi upp) og bakið í ofni við 175°C í u.þ.b. klukkutíma. Fylgist með skvassinu undir lokin og passið að brenna það ekki. Útbúið kjötsósuna þegar u.þ.b. 20-30 mín eru eftir af skvassinu í ofninum.

  4. Kjötsósan: Setjið tómatana úr dós í matvinnsuvél eða blandara og maukið vel. Setjið tómatpaste-ið út í sem og græna kryddið og karamellaða laukinn.

  5. Brúnið hakkið á pönnu og kryddið með salti og pipar.

  6. Hellið sósunni yfir kjötið.

  7. Bætið grænmeti út í sósuna ef vill og látið malla í nokkrar mínútur.

  8. Lækkið svo undir og haldið hitanum á kjötsósunni þar til skvassið er tilbúið.

  9. Þegar skvassið er tilbúið er það látið kólna í smá stund þar til hægt er að vinna með það. Best er að nota töng eða einhvers konar áhald til að halda við og "skafa" svo kjötið úr ávextinum með gaffli. Upp koma eins konar ræmur í líkingu við mjótt spaghetti.

  10. Berið fram spaghetti skvass með kjötsósu yfir.

bottom of page