top of page

Hamborgari, franskar og sósa

Er ég ekki nýbúin að skrifa annan póst um þetta sama efni? Jú, hann er hér. Í fyrri póstinum má sjá uppskriftina að sósunni og sætkartöflufrönskunum.

Nú gerði ég aðra uppskrift að hamborgarabrauði og fannst mér það takast mjög vel.

Hamborgari, franskar og sósa

Meðlætið með hamborgaranum að þessu sinni var ekki af verri endanum. Ég hlóð hamborgarann minn af góðgæti, ég átti til vegan ost sem ég keypti í Krónunni og notaði með. Hann bragðast nokkuð vel og bráðnar ágætlega eins og sést á myndinni. Osturinn sem ég notaði er Violife með pizza bragði. Annað álegg var avocado, vorlaukur, tómatar, romaro paprika, kál og að sjálfsögðu sósan góða. Í þetta sinn setti ég smá dill í sósuna og það var ekki verra.

Í síðasta pósti varð deigið mjög lint og þurfti ég að setja það í bollakökuform til að halda því saman. Í þetta sinn hélst deigið saman að sjálfsdáðum og varð enn skemmtilegra. Lykilinnihaldsefnið er tapioca sterkjan, en vegna þess að ekkert glútein er í möndlumjölinu, þá bæði lyftist deigið ekki eins vel né helst eins vel saman. Tapioca sterkjan gerir gæfumuninn og úr verður brauð sem hefur líkari áferð og venjuleg brauð. Tapioca sterkju er hægt að kaupa í asískum búðum.

Hamborgarabrauð

Ég minnkaði uppskriftina niður í 1/3 (þ.e. ég miðaði við að nota bara 1 egg) og úr uppskriftinni komu þá tvö brauð. Þar sem ég notaði bara annað þeirra á ég eitt til góða sem ég mun nota í afganga í vikunni þegar ég þarf að taka nesti með mér í vinnuna.

Innihald

Fyrir 4-6 brauð, eftir stærð

2 bollar möndlumjöl

1/2 bolli tapioca sterkja

1/2 tsk salt

1/2 tsk matarsódi

1/2 tsk vínsteinslyftiduft

1/4 tsk hvítlauksduft (má sleppa)

1 tsk epla edik

3 egg

1 msk hunang

1 msk olía (ólífu- eða kókosolía)

Ofan á brauðin:

U.þ.b. 1 msk olía að eigin vali

1 msk sesamfræ

Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C.

  2. Blandið saman möndlumjöli, tapioca sterkju, salti, matarsóda, lyftidufti og hvítlauksdufti.

  3. Í annarri skál þeytið saman eggin, epla edikið og hunang.

  4. Hellið blautu innihaldsefnunum saman við þau þurru og hellið svo olíunni saman við. Hrærið þar til vel blandað.

  5. Ef deigið er of blautt má bæta við smá möndlumjöli.

  6. Mótið kúlur úr deiginu. Gott er að smyrja hendur með olíu til að deigið festist ekki við þær.

  7. Setjið kúlurnar á smurða ofnplötu og ýtið aðeins ofan á til að forma hamborgarabrauð.

  8. Penslið olíu yfir toppinn og stráið sesamfræum yfir.

  9. Bakið í 12-15 mínútur eða þar til brauðin eru orðin gullinbrún að ofan.

bottom of page