top of page

Morgunverðar boost

Jæja, eftir góða helgarferð til Glasgow þar sem aðeins var farið út af sporinu er gott að skella sér aftur í gírinn með einum góðum morgunverðar drykk. Mér finnst ekki gott að borða þungan morgunmat og hef því stundum með mér drykki í vinnuna. Oft er það einfalda og fljótlega útgáfan, Froosh, en ef ég hef tíma fyrir mér þá finnst mér voða gott að skella í eitt boost.


Við eigum frábæran blandara sem blandar í eitt boost glas í einu. Hnífurinn skrúfast beint á glasið og svo er hægt að taka hann af og skipta út fyrir lok. Þetta lágmarkar þrif og skammturinn verður alltaf hæfilega stór.


Morgunverðar boost

Yfirleitt hendi ég bara því í glasið sem ég á til hverju sinni og geta útgáfurnar því verið ansi fjölbreyttar, en þó er ég með nokkra fasta punkta. Drykkurinn sem ég ætla að segja ykkur frá að þessu sinni er tiltölulega hefðbundinn og ég geri oftast einhvers konar útgáfu af honum.


Það sem ég er hvað hrifnast af í boostunum mínum er möndlusmjörið. Þetta er auðvitað smekkatriði og ekki allir sem eru hrifnir af möndlusmjöri. Því er auðvitað hægt að sleppa eða skipta út fyrir eitthvað annað. Möndlusmjörið gefur einhvern veginn rjómakennda áferð og "þykkara" bragð. Það er erfitt að útskýra það en mér finnst það æði.


Möndlusmjör í boostinu

Annað sem ég setti í þetta boost en geri ekki alltaf, það eru chia fræ. Chia fræin eru uppfull af omega-3 fitusýrum sem eru eitt af því sem okkur skortir oft í nútíma mataræði. Í dag er hlutfall af Omega-3 á móti Omega-6 orðið á þá leið að við erum að fá mikið meira af Omega-6 en of lítið af Omega-3. Því er gott að bæta meira við af Omega-3 til að ná þessu hlutfalli aftur í rétt horf. Rétt hlutfall ætti að vera um 1:1 eða 2:1 þar sem meira er af Omega-3. Reyndin er hins vegar sú að mikið meira er almennt af Omega-6 í því mataræði sem nútímamaðurinn borðar og því er hlutfallið skakkt.


Chia fræ í boostinu

Þar sem ég er viðkvæm í ristli og meltingu get ég alls ekki borðað chia fræin nema þau hafi fengið að liggja í dágóðan tíma í bleyti. Ef þau eru of lítið uppleyst skapar það mikil vandræði fyrir mig. Ráðið sem ég nota þá er að láta þau liggja í bleyti í vatni í smá stund á meðan ég hef restina af boostinu til. Þegar boostið er tilbúið set ég chia fræin út í og læt þau liggja óhreyfð efst í boostinu í nokkurn tíma í viðbót. Ég tek glasið með mér í vinnuna og hristi svo chia fræin saman við rétt áður en ég byrja að drekka, það getur verið allt að klukkutíma seinna.


Morgunverðar boost

En byrjum nú á byrjuninni, það eru auðvitað ávextir, ber og mjólkin.


Innihald

Fyrir einn

1-2 msk óbleytt chia fræ

1/2 dl vatn

4-6 frosin jarðarber, eftir stærð

1-2 lúkur af frosnum mangó

1 lúka af frosnum bláberjum

2 msk möndlusmjör (má sleppa)

1/2 - 1 bolli möndlumjólk, kókosmjólk eða önnur mjólk að vild


Aðferð

  1. Setjið chia fræin í bleyti í skál þannig að vatnið sé nóg til að hægt sé að bleyta chia fræin vel. Hrærið aðeins í.

  2. Setjið ávextina og berin í blandarann ásamt möndlusmjörinu. Ef notast er við blandara eins og ég þá helli ég nógu mikilli mjólk í þar til u.þ.b. 2 cm eru eftir upp í brún.

  3. Blandið vel þar til öll ber eru maukuð.

  4. Hellið chia frænum efst í blönduna. Ekki hrista saman strax!

  5. Geymið í 30 mín til klukkutíma. Má standa á borði eða í ísskáp.

  6. Hristið boostið vel áður en það er drukkið til að blanda chia fræunum vel saman við.

  7. Hægt er að nota hvaða ávexti/ber, frosin eða fersk, sem vill og einnig er gott að bæta spínati eða grænkáli út í. Jafnvel engifer.

bottom of page