top of page

Svínakótilettur með BBQ sósu og ofnbökuðu grænmeti

Matarundirbúningur vikunnar fer seint af stað. Mánudagurinn endaði í aðkeyptum kjúklingi frá Krónunni og í gær var mér boðið í mat til vinkonu svo að kvöldið í kvöld var fyrsta kvöld vikunnar sem við elduðum mat. Við fórum í Costco í gær og keyptum girnilegar svínakótilettur svo að ákveðið var að skella í þessa girnilegu BBQ sósu og draga út grillið sem er búið að fá að liggja inni í bílskúr í nokkra mánuði.


Ég verð að viðurkenna að þegar grillilminn lagði um hverfið upplifði ég tilhlökkunina eftir vorinu og það létti aldeilis lundina.


Svínakótilettur með BBQ sósu og ofnbökuðu grænmeti

Þessi BBQ sósa er með smá negul í og það kemur smá jólalykt í húsið en bragðið á líka einstaklega vel með svínakjöti. Ég ímynda mér að sósan sé góð með hverju sem er og varð mjög glöð þegar ég sá að það varð ágætur afgangur sem ég get notað með einhverju öðru næstu daga.


Innihald

Fyrir 4

4 stk svínakótilettur, helst með beini


Fyrir sósuna:

2 hvítlaukslauf

2 cm ferskt engifer

1/2 laukur

1 meðal stórt mangó

2 msk eplaedik

1 lítil dós (70 gr) tómatpuré

2 msk sítrónusafi

1/3 bolli vatn

1/4 tsk kanill (má sleppa)

1/4 tsk salt

negull á hnífsoddi

cayenne pipar á hnífsoddi (má sleppa)

1/4 bolli hunang

Salt og pipar eftir smekk

Ólífuolía til steikingar


Fyrir ofnbakaða grænmetið:

1 rauðlaukur

2-3 gulrætur, eftir stærð

1/2-1 sæt kartafla, eftir stærð

1-2 rauðrófur, eftir stærð

Ólífuolía

Salt, pipar og hvítlaukskrydd


Aðferð

  1. Merjið hvítlaukinn og saxið engiferið og laukinn. Setjið í pott með olíu.

  2. Hitið á meðalháum hita þar til laukurinn byrjar örlítið að mýkjast.

  3. Skerið mangóið í bita og setjið í pottinn ásamt öllum öðrum innihaldsefnum í sósunni.

  4. Látið suðuna koma upp og látið krauma í a.m.k. 30 mínútur. Má krauma lengur.

  5. Skerið allt grænmetið í hæfilega bita og setjið í ofnfast mót. Hellið olíu yfir ásamt kryddi og bakið í ofni við 175-200°C í 20-30 mínútur eða þar til grænmetið er mjúkt.

  6. Grillið svínakótiletturnar í u.þ.b. 4-5 mínútur á hverri hlið (eftir þykkt), setjið svo sósu á hverja sneið og grillið í eina mínútu í viðbót á hverri hlið.

  • Athugið að grilla kjötið eftir þörfum, ekki of mikið og ekki of lítið.

bottom of page