top of page

Döðlu-hnetubitar

Uppfærð uppskrift 3. okt 2018.

Ég varð vör við að ef ég borðaði of mikið af þessum frábæru bitum þá fékk ég í magann. Ég held að það séu döðlurnar sem eiga það til að fara illa í mig og því gerði ég annan skammt í þetta sinn og breytti aðeins innihaldinu. Leyfum fyrst fyrsta póstinum að renna í gegn óáreittum, breytta uppskriftin er neðst.


Nú er ég komin heim úr vikuferðalagi vegna vinnu. Að ferðast með sérþarfir í mataræði er mjög erfitt. Það er eitt að velja sér Paleo mataræði, en annað að vera með ofnæmi eða óþol sem maður verður að taka tillit til. Ég ákvað að vera skynsöm og taka með mér sætindi, svo ég myndi ekki freistast til að kaupa og/eða borða eitthvað sem væri ekki paleo vænt eða hvað þá laktósaóþolsvænt. Úr varð að ég prófaði að gera hnetubita með döðlum.

Hnetubitar

Ég notaði hnetumix sem ég keypti í Costco fyrir nokkru og döðlur sem ég átti í skápnum. Þar sem döðlurnar voru ekki alveg nýjar og mjúkar, þá lagði ég þær í bleyti aðeins fyrst, til að mýkja þær. Í hnetumixinu eru kasjúhnetur, brasilíuhnetur, valhnetur, pistasíukjarnar, heslihnetur, möndlur og makadamia hnetur. Nota má hvaða hnetublöndu sem er, en ég mæli með a.m.k. valhnetum, kasjúhnetum og möndlum.


Herlegheitin eru mulin saman í matvinnsluvél og þá er gott að eiga góða vél sem ræður við hneturnar því þær geta verið mjög harðar og erfiðar fyrir hníf í svona vélum. Mín erfiðaði töluvert og skildi eftir stóra bita af hnetunum. Það fannst mér reyndar bara gott og hefði ekki viljað hafa blönduna meira saxaða en raun var.


Döðlu-hnetubitar

Í raun notaði ég blandarann sem kom með töfrasprotanum mínum, mér fannst hann vera af réttri stærð en þú getur notað hvaða blandara/matvinnsluvél sem þér hentar. Þegar söxun var lokið voru hneturnar mismikið saxaðar sem gefur skemmtilega áferð og smá kröns í bitana.


Þessa bita þarf ekki að baka, bara að kæla, svo þeir eru frekar einfaldir og þægilegir í gerð. Hnetumixið með döðlunum er látið kólna og svo er bráðnu súkkulaðinu dreift yfir og aftur kælt. Einfaldara gæti það ekki verið.

Í þessum bitum svindlaði ég svolítið út fyrir paleo rammann og notaði suðusúkkulaði ofan á. Hægt er að nota hvaða súkkulaði sem er, svo lengi sem það bráðnar og þér finnst það gott. Til að gera þetta enn skemmtilegra stráði ég grófu salti yfir súkkulaðið og mér fannst það alveg setja punktinn yfir i-ið.


Súkkulaði og gróft salt yfir

Þessir bitar komu svo vel út að mig langaði að fá mér bita í öll mál. Ég reyndi þó að hemja mig þar sem of mikið af döðlum er ekki gott í minn viðkvæma maga og því varð ég að takmarka hversu marga bita á dag ég fékk mér. Ég skar bitana í mátulega stór stykki til að nota sem eftirrétt en auðveldlega er hægt að skera þá í minni bita svo þeir verði bara einn munnbiti.


Bitarnir voru ca. 2 x 3 cm á stærð og var það akkúrat nóg fyrir mig til að njóta sem eftirréttar þegar ég kom upp á hótelherbergi eftir langan dag. En við skulum ekki hafa þetta blaður lengra og demba okkur í uppskriftina.


Innihald

1 bolli blandaðar hnetur

1/4-1/2 bolli kókosflögur

1/2 bolli döðlur (lagðar í bleyti ef þarf)

200 gr paleo súkkulaði, sjá uppskrift hér (líka hægt að nota hvaða tegund af súkkulaði sem þú vilt)

1,5 msk kókosolía

Örlítið gróft salt og/eða möndluflögur


Aðferð

  1. Látið renna af döðlunum ef þarf.

  2. Setjið döðlurnar og hneturnar saman í matvinnsluvél ásamt um það bil helmingnum af kókosflögunum og vinnið saman þar til hneturnar eru komnar í litla bita. Skafið niður úr hliðunum af og til.

  3. Setjið afganginn af kókosflögunum saman við.

  4. Þekið form með álpappír eða bökunarpappír.

  5. Þrýstið hnetu- og döðlumixinu ofan í botninn á forminu og setjið í kæli.

  6. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði og bætið kókosolíunni út í.

  7. Látið súkkulaðið kólna örlítið áður en því er hellt yfir hnetu- og döðlumixið.

  8. Stráið saltinu/möndluflögunum yfir á meðan súkkulaðið er ennþá lint.

  9. Setjið í kæli og kælið þar til súkkulaðið hefur sest, í a.m.k. klukkutíma.

  10. Skerið í hæfilega bita og njótið!

bottom of page