top of page

Tapioca grautur

Ég skellti í pöntun á Amazon sem ég fékk rétt áður en ég þurfti að halda í ferð úr landi á vegum vinnunnar. Mér gafst ekki tækifæri til að prófa neitt af því sem ég fékk en nú þegar ég er komin heim er fullt tækifæri til að prófa. Í pöntuninni voru meðal annars tapioca perlur.

Þar sem ég hef ekki fengið grjónagraut í marga mánuði var mig farið að langa að prófa að gera einhvers konar útgáfu sem ég gæti notið. Ég má hvorki borða mjólkina né hrísgrjónin, svo það var útilokað að prófa grjónagraut með annarri mjólk og ekki datt mér neitt annað í hug að prófa í staðinn fyrir hrísgrjónin. En svo fékk ég þessa frábæru hugmynd að athuga með tapioca perlur.

Tapioca er unnið úr cassava rót. Oft má finna tapioca sem sterkju og er hún þá einnig kölluð tapioca hveiti og er mikið notað í bakstur á gluteinlausu brauði. Ég hef áður keypt tapioca sterkju til að baka með. Tapioca grjón minna eilítið á sago grjón og ef þið hafið fengið sagógrjónagraut, þá minnir tapioca grautur mig á það. Tapioca perlur líta svona út:

Tapioca perlur

Tapioca perlur. Mynd fengin af: https://www.mounthopewholesale.com/product/miscellaneous/tapioca-pearls/

Leggja þarf perlurnar í bleyti áður en þær eru eldaðar, en eldunin tekur ekki langan tíma. Ég fann góða uppskrift sem ég útfærði aðeins sjálf og ég datt mörg ár aftur í tímann við það að borða þetta. Smá kanill fullkomnaði svo samsetninguna og ekki skemmdi fyrir að ég átti smá afgang af súkkulaði sem ég hafði gert til að búa til páskaegg fyrir mig (það kemur í öðrum pósti seinna). Ég borðaði svo mikið að ég þurfti að leggjast út af!

Tapioca búðingur með kanil

Það er dágott magn af sýrópi í þessari uppskrift en án efa má minnka það, sleppa eða skipta út fyrir annað sætuefni ef vill. Ég setti bara kanil yfir því grauturinn er nógu sætur einn og sér.


Innihald

1/3 bolli tapioca perlur, lagðar í bleyti í a.m.k. klukkutíma

1 dós kókósmjólk

1/4 bolli hlynsýróp

smá salt

smá kanill

1/2 tsk vanilludropar


Aðferð

  1. Setjið tapioca perlurnar í bleyti í a.m.k. klukkutíma.

  2. Hellið vatninu af perlunum og setjið þær í pott ásamt öllum innihaldsefnum.

  3. Setjið pottinn yfir meðal háan hita. Reynið að láta ekki sjóða en haldið góðum hita á. Ef búðingurinn byrjar að sjóða, lækkið þá hitann vel.

  4. Hrærið í öðru hvoru og fylgist vel með pottinum.

  5. Búðingurinn er tilbúinn þegar allar perlurnar eru orðnar glærar. Engar perlur skulu vera ennþá hvítar. Þetta tekur 15-20 mínútur.

  6. Ekki láta ykkur bregða ef ykkur finnst vera mikill vökvi í grautnum, tapioca perlurnar halda áfram að draga í sig vökvann og þykkna eftir því sem þær kólna.

  7. Látið búðingin kólna og borðið með kanil eða súkkulaðisósu.

bottom of page