top of page

Súkkulaðikaka

Þá gafst loksins tækifæri til að henda í eina alvöru súkkulaðiköku. Ég er búin að vera að bíða eftir tækifæri þar sem fleiri en bara heimamenn munu vera á svæðinu til að njóta. Tækifærið var að ég var að fá Ladies Circle konurnar mínar í heimsókn í fyrsta stjórnarfund nýrrar stjórnar. Ég er meðlimur í Ladies Circle klúbbi nr. 4 hér á Höfuðborgarsvæðinu og er það alveg brill (takk Steinunn, fyrir að draga mig inn í þetta). Ég er nýtekin við formannssætinu og bauð hinum konunum í stjórninni til mín á fund til að skipuleggja næsta ár.


Súkkulaðikaka


Ég var svo ánægð að fá loksins afsökun til að baka alvöru súkkulaðiköku og að ég tali nú ekki um að gera eitthvað meira. Ég endaði svo á að gera líka möndlusmjörskókoskúlur sem heppnuðust bara mjög vel. Þær koma í sér pósti.


Súkkulaðikaka, kókoskúlur og ananas

Það eru ekki fá innihaldsefnin í þessari súkkulaðiköku, en hún er samt ekki flókin í vinnslu og ekki tímafrek.


Innihald í súkkulaðiköku

Ég var nýbúin að fá aftur sendingu frá iHerb þar sem ég pantaði kókoshveiti. Ég var ekki búin að sjá kókoshveiti í búðum hérna heima í nokkrar vikur. Ég veit ekki hvort það var vegna þess að ég var bara alltaf óheppin og það var búið, eða hvort það var virkilega ekki búið að vera til í mörgum búðum í margar vikur. Jæja, hver svo sem ástæðan var, þá pantaði ég eina sendingu og tók tvo poka af kókoshveitinu.


Þurrefni

Þessi uppskrift krefst þess að blanda þurrefnum saman í sérskál og svo þeim blautu í annarri skál áður en þeim er blandað saman.



Þeyta á blautefnin saman í skálinn og svo blanda varlega saman. Ég var ekki viss um hvort stífþeyta ætti þetta saman og ég gerði það ekki, en ég veit ekki tilganginn í því að blanda þeim blautu saman við þurrefnin varlega.



Deigið verður svolítið kekkjótt og kornótt út af kókoshveitinu og ég lét það bíða í smá stund áður en ég setti það í form og í ofninn. Það tekur kókoshveitið alltaf smá stund að drekka í sig vökvann áður en það er orðið mett. Deig með kókoshveiti verður því alltaf aðeins þykkara þegar það er látið bíða smá.



Það var eitt sem ég svindlaði með í þessari köku og það var kremið. Ég notaði bæði suðusúkkulaði og dökkt súkkulaði með piparmyntu frá Himneskt. Þessi tvö súkkulaði eru ekki Paleo, en þau eru a.m.k. mjólkurlaus.


En vindum okkur í uppskriftina.


Innihald

Fyrir köku:

2 bollar möndlumjöl

2 msk + 2 tsk kókoshveiti

1/2 bolli kakóduft

1/3 bolli kókospálmasykur

1,5 tsk lyftiduft

1/2 tsk salt

1/3 bolli brædd kókosolía

2/3 bolli kókosmjólk úr dós

2 egg við stofuhita

1,5 tsk vanilludropar

1 msk + 1 tsk hunang


Fyrir krem:

150-200 gr súkkulaði að eigin vali, ég notaði suðusúkkulaði og dökkt súkkulaði með piparmyntu frá Himneskt til helminga (ATH þetta súkkulaði er ekki Paleo vænt)

4-6 msk kókosmjólk úr dós


Aðferð

Fyrir kökuna:

  1. Hitið ofninn í 175°C

  2. Smyrjið hringlaga kökuform með lausum botni og leggið bökunarpappír í botninn.

  3. Blandið saman þurrefnum í stóra skál.

  4. Í annarri skál pískið saman blautu efnin.

  5. Blandið blautu innihaldsefnunum saman við þau þurru þar til allt er vel blandað saman. Forðist að hræra of mikið í deiginu.

  6. Látið deigið bíða í augnablik á meðan kókoshveitið drekkur í sig vökvann.

  7. Hellið deiginu í kökuformið og bakið í ofninum í u.þ.b. 40 mínútur eða þar til pinni sem stungið er í kökuna kemur út hreinn.

  8. Kælið kökuna vel áður en kremið er sett á.

Fyrir kremið:

  1. Bræðið súkkulaðið yfir vatnsbaði.

  2. Þegar allt súkkulaðið hefur bráðnað bætið þá kókosmjólkinni saman við og blandið vel þar til kremið er orðið silkimjúkt. Byrjið með minna af kókosmjólkinni og bætið við eftir þörfum.

  3. Látið kremið kólna í 5 mínútur áður en það er borið á kökuna.

bottom of page