top of page

Möndlu-kókoskúlur

Hér er önnur uppskrift að því hvað hægt er að gera með möndluhratið sem fellur til við möndlumjólkurgerðina. Í þessum pósti koma líka fyrstu myndirnar sem ég er að taka á myndavélina mína og nýta það sem ég lærði á ljósmyndanámskeiðinu sem ég fór á. Hingað til hafa myndirnar í blogginu mínu alltaf verið teknar á símann minn og ég hef notað filter á þær. Næst liggur fyrir að kaupa nýja linsu til að gera myndirnar ennþá fallegri.


Kókoskúlur

Ég gerði tvær tegundir að kókoskúlum, þar sem ég vildi hafa tilbreytingu í þeim. Kókoskúlurnar hugsaði ég líka í tvenns konar tilgangi. Annars vegar að vera eitthvað sætt sem ég gæti átt í ísskápnum og hins vegar sem svokallaðar fitubombur (e. fatbombs), sem eru vel þekktar hjá þeim sem fylgja LKL mataræði.


Kókoskúlur

Þessar tvær gerðir komu vel út og ég hef verið að nýta mér þær sem hluti af morgunmat, sérstaklega fyrir ræktina þegar mig vantar orkuskot.


Kókoskúlur

Ég set hér uppskriftirnar að báðum kókoskúlunum, aðrar eru meira sætar en hinar eru meira fitubomba.


Möndlu-kókoskúlur með appelsínu (sætari) Vegan

Innihald

1 bolli möndluhrat (eða möndlur saxaðar í matvinnsluvél með smá vatni)

1 bolli mjúkar döðlur (ég notaði minna)

1/2 bolli kókosmjöl (ekki kókoshveiti)

2 tsk kakó

1 msk bráðin kókosolía

1-2 appelsínubátar

smá salt

kókosmjöl og kakó til að velta upp úr


Aðferð

  1. Setjið möndluhratið ásamt döðlum í matvinnsluvél og saxið þar til það blandast.

  2. Bætið við kókosmjöli, kakói og kókosolíu og blandið áfram.

  3. Bætið appelsínubátum við, einum í einu og smakkið til ásamt salti.

  4. Saxið/maukið áfram þar til allt er vel blandað og smátt saxað.

  5. Mótið litlar kúlur og veltið upp úr kakói og/eða kókosmjöli.

  6. Geymið í ísskáp. Geymist í u.þ.b. viku.


Möndlufitubombur (vegan og LKL)

Innihald

1/2 bolli möndlusmjör

1/2 bolli möndluhrat

1,5 msk kókosolía

1 msk kakó

1 msk hlynsýróp (sleppið ef LKL)

kókosmjöl til að velta upp úr


Aðferð

  1. Blandið öllu saman í skál með sleif.

  2. Mótið litlar kúlur og veltið upp úr kókosmjöli.

  3. Kúlurnar geta orðið blautar vegna olíunnar.

  4. Geymið í ísskáp eða frysti (þær verða mjög linar við stofuhita). Geymist í u.þ.b. viku.


bottom of page