top of page

Möndlubrownies

Eftir að hafa gert nokkra skammta af möndlumjólk var hratið sem myndast við mjólkurgerðina að hrannast upp hjá mér. Þá var kominn tími til að finna hvað hægt er að gera úr því. Hvað er betra með ískaldri mjólk annað en súkkulaðikaka? Fátt, það er svarið.


Möndlubrownies eru bestar með mjólk

Þessar brúnkur komu alveg ótrúlega vel út og meira að segja 12 ára sonurinn kolféll alveg fyrir þeim og gat ekki staðist að lauma sér í þær.


Möndlubrownies

Brúnkurnar urðu mjög þéttar og mér fannst æðislegt hvernig möndluhratið gaf þeim smá bit eða crunch. Ég setti ekki of mikið kakó í þær til að kakó bragðið yrði ekki yfirgnæfandi.


Möndluhrat í möndlubrownies

Á myndunum má sjá hvernig möndlurnar eru í misstórum bitum sem gefur þeim þessa skemmtilegu áferð.


Innihald

4 egg

1 bolli kókossykur

1 msk vanilludropar

1/2 tsk fínt salt

1/2 bolli bráðin kókosolía

170 gr af möndluhrati (ef þú átt ekki möndluhrat er hægt að búa það til með því að mauka möndlur í matvinnsluvél með smávegis vatni)

3/4 bolli kakó


Aðferð

  1. Hitið ofninn í 200°C.

  2. Þeytið eggin og sykurinn ásamt saltinu í hrærivél þar til létt og ljóst, eða í u.þ.b. 5 mínútur.

  3. Bræðið kókosolíuna á meðan og setjið hratið útí. Hrærið þar til allt er vel blandað og hratið er orðið volgt.

  4. Blandið vanilludropum saman við eggja blönduna.

  5. Stillið hrærivélina á hægasta hraða og blandið kókosolíunni með hratinu saman við.

  6. Sigtið kakókið út í og blandið varlega.

  7. Setjið í smurt form eða form klætt með bökunarpappír og setjið í miðjan ofninn.

  8. Bakið í 40-50 mínútur. Fylgist vel með og passið að baka ekki of mikið (í upprunalegu uppskriftinni sagði að baka ætti brúnkurnar í 15-20 mínútur, en hjá mér var deigið ennþá fljótandi eftir þann tíma).

  9. Leyfið að kólna vel og skerið svo í bita. Geymist vel í loftþéttum umbúðum við stofuhita.

bottom of page