top of page

Kasjú "osta"kaka

Ég sá uppskrift að mjólkurlausri ostaköku með karamellutoppi sem mér fannst svo rosalega girnileg að ég ákvað að prófa mína útgáfu af henni. Ég notaði möndluhrat í botninn, en í upprunalegu útgáfunni var möndlumjöl og því alveg hægt að skipta því út.

Kasjú ostakaka

Ég var svo hrifin af þessari ostaköku og fannst mjög gott "osta" bragð að kasjú millilaginu. Það hefði meira að segja mátt vera aðeins meiri sítróna til að gefa meira súrt bragð eins og oft er að ostakökum.


Botninn

Botninn var góður og kanillinn gaf smá keim sem hefði ekki mátt missa sig, að mínu áliti, en ef þú ert ekki hrifin af kanil má vel sleppa honum. Hann var frekar laus í sér og hefði trúlega verið þéttari ef ég hefði notað möndlumjöl í stað möndluhratsins.


Botn og millilag

Kasjú millilagið var alveg æðislegt og það var í raun svo æðislegt að mér fannst vera karamellunni ofaukið. Karamellan ofan á var full mikil og næst þegar ég geri þessa ostaköku mun ég trúlega hafa minna magn af karamellunni eða jafnvel skipta henni út fyrir súkkulaðitopp. Ég hugsa að það gæti einnig verið gott að hafa ávaxtatopp, eins og t.d. chia sultuna sem ég skrifaði um hér.


Kasjú ostakaka

Karamellu topplagið var, eins og áður segir, aðeins of mikið. Bæði er karamellan mjög sæt og magnið fannst mér vera of mikið. Það hefði átt að vera bara örþunnt ofan á, rétt til að gefa sætt bragð.


Engu að síður fannst mér ostakakan heppnast vel, hún er einföld í framkvæmd og bragðaðist mjög vel.


Innihald

Fyrir 4 glös


Botn

1/2 bolli möndluhrat eða möndlumjöl

1,5 msk hlynsýróp

1,5 msk brædd kókosolía

1/4 tsk kanill (má sleppa)

1/4 tsk sal


Ostaköku millilag

3/4 bollar kasjúhnetur sem legið hafa í bleyti í heitu vatni í a.m.k. klukkutíma.

2 msk kókosolía

1/4 bolli kókosrjómi (þykki hlutinn frá kókosmjólk úr dós)

1 tsk vanilludropar

1,5 msk sítrónusafi (eða meira ef vill)

1,5 msk hlynsýróp


Karamella

1/3 bolli hunang

1/2 bolli kókosrjómi (þykki hlutinn frá kókosmjólk úr dós)

1/4 bolli kókosolía

1 tsk vanilludropar

1/2 tsk salt

2 msk gróft saxaðar pekan hnetur


Aðferð

ATH! Leggið kasjúhneturnar í bleyti í heitt vatn í a.m.k. klukkutíma áður en hafist er handa.


Botn

  1. Setjið öll innihaldsefnin í botninum saman í skál og blandið vel.

  2. Skiptið á milli fjögurra glasa og þjappið vel niður í botninn með fingrunum.

Ostaköku millilag

  1. Setjið öll innihaldsefnin fyrir millilagið saman í matvinnsluvél eða kröftugan blandara og blandið vel saman þar til allt er orðið mjúkt.

  2. Smakkið til og bætið við sítrónusafa eða sýrópi til að sæta eða fá súrara bragð.

  3. Skiptið jafn á milli glasa ofan á botninn og setjið svo í ísskáp til að fyllingin verði stíf.

Karamella

  1. Blandið hunangi, kókosrjóma og kókosolíu saman í potti og náið upp suðu. Sjóðið í 10 mínútur á lágum hita.

  2. Bætið vanilludropum, hnetum og salti saman við eftir 10 mínútur og látið kólna.

  3. Hellið karamellunni yfir ostaköku millilagið þegar hún er búin að kólna niður í stofuhita.

  4. Setjið aftur í ísskáp og látið kólna í a.m.k. klukkutíma svo að karamellan nái að stífna vel.

bottom of page