top of page

Taco salat

Við skipuleggjum oft máltíðir vikunnar fyrirfram en að þessu sinni breytti ég skipulaginu á síðustu stundu. Ég var búin að taka hakk úr frysti og ætlaði að gera einhvers konar kjötböku (shepherd's pie). Þar sem við áttum ennþá svo mikið salat (sjá póst um salat með beikoni) ákvað ég að breyta um skoðun og hafa frekar tacos í matinn. Ég get auðvitað ekki borðað taco skeljarnar, þar sem þær eru alls ekki paleo vænar en ákvað þess í stað að breyta mínu tacoi í salat (ennþá betri nýting á salatinu!).


Taco salat

Ég verð að segja að þetta var rosalega gott og kom mér skemmtilega á óvart. Ég saknaði ekki skeljarinnar þó að hinir í fjölskyldunni væru að kjammsa á henni mér við hlið.


Pico de gallo

Með máltíðinni ákvað ég að búa til mína eigin taco sósu, eða pico de gallo. Þessi útgáfa er einstaklega einföld og fljótgerð og þið sem hafið farið á kynningar með Tupperware nýlega hafið jafnvel fengið eitthvað í líkingu við þetta. Ég nota litla matvinnsluvél í verkið, það er t.d. tilvalið að nota litlu skálina og matvinnsluvélina sem kemur oft með töfrasprotum.


Taco salat með pico de gallo

Í þetta sinn gerði ég ekki guacamole, einfaldlega vegna þess að ég var of löt. Ég átti allt í það en ákvað að hafa bara niðursneitt avocado í staðinn. Ég vissi reyndar að guacamole-ið er alltaf svo vinsælt hjá fjölskyldunni að það myndi trúlega ekki duga að gera það bara úr einu avocado. Ef fólk vill má að sjálfsögðu græja eitt svoleiðis á litlum tíma (sjá uppskrift hér)


Pico de gallo

Fyrst að verið er að útbúa pico de gallo á annað borð er tilvalið að skella líka í guacamole, því það er ekkert betra en að setja smá af pico de gallo-inu út í guacamole-ið! Og til að gefa ykkur smá óþarfa upplýsingar, þá þýðir pico de gallo goggur á hana, enda er sósan rauð eins og goggur hanans.


Taco salat

Salatið var ekki síðra þó ekkert guacamole væri með, pico de gallo sósan var meira en nóg. Þetta salat er t.d. hægt að útbúa úr afgöngum eftir taco, þegar skeljarnar eru e.t.v. orðnar mjúkar og ógirnilegar.


Innihald

Pico de gallo:

4 - 6 vel þroskaðir tómatar

2 hvítlaukslauf

1/4 laukur

smá límónusafi

gróft salt

kóríander (ferskt eða þurrkað)

malað, þurrkað engifer krydd


Salat:

Fyrir 1

hakk (jafngildi úr 2 taco skeljum) steikt og kryddað eins og fyrir tacos

salatblanda á einn disk

smátt skorinn laukur

smátt skorin paprika

avocado skorið í teninga (eða guacamole, sjá uppskrift hér)

pico de gallo sósa


Aðferð

Pico de gallo:

  1. Skerið tómatana gróft og hreinsið "stilkana" frá.

  2. Setjið öll innihaldsefnin nema kryddin saman í matvinnsluvél/blandara og maukið þar til allt er smátt saxað.

  3. Kryddið eftir smekk.

Salat:

  1. Blandið öllum innihaldsefnum saman á disk eða í salatskál og setjið pico de gallo yfir.


bottom of page