top of page

Heimagert möndlusmjör

Ég kláraði möndlusmjörið mitt um daginn, en ég hef verið að kaupa það í Costco á ágætu verði. Stór krukka í Costco (um 750 gr) kostar um 1.150 krónur en krukka sem er meira en helmingi minni (um 350 gr) í Krónunni eða Bónus kostar um 900 kr. Þegar ég fann svo ekki möndlusmjörið í Costco hafði ég ekki geð í mér að kaupa það á hinum stöðunum, svo ég ákvað að búa mér til möndlusmjör sjálf.


Heimagert möndlusmjör

Ferlið við gerð möndlusmjörsins tekur smá tíma og maður þarf að brynja sig þolinmæði. Möndlurnar eru lagðar í bleyti fyrst í að minnsta kosti átta klukkutíma. Ég læt mínar oft liggja yfir nótt.


möndlur tilbúnar úr ristun

Ég "rista" svo möndlurnar í ofni en það er gert til að þurrka þær vel. Við ristunina kemur aðeins öðruvísi bragð að þeim en vel má sleppa þessu skrefi og bara þurrka möndlurnar við stofuhita (það gæti þó tekið 1-2 daga). Ristaðar möndlur verða aðeins dekkri á litinn.


óristaðar möndlur

Þegar kemur svo að því að setja möndlurnar í matvinnsluvél þá er gott að hafa góðan tíma og vera þolinmóður. Einnig þarf að fylgjast vel með matvinnsluvélinni því það þarf að skafa reglulega úr hliðunum. Matvinnsluvélin mín er hátt í 20 ára gömul og ég þurfti líka reglulega að stoppa hana til að passa að hún bræddi hreinlega ekki úr sér.


muldar möndlur

Fyrstu eina til tvær mínúturnar sést mikill munur frá heilum möndlum yfir í muldar möndlur en svo fljótlega eftir það finnst manni eins og ekkert sé að gerast í matvinnsluvélinni fyrr en möndlurnar eru búnar að vinnast í hátt í 20 mínútur (30-40 mín með stoppum). Hér fyrir neðan eru myndir af nokkrum skrefum á leiðinni frá muldum möndlum yfir í möndlusmjörið.


Fyrsta myndin er eftir u.þ.b. 5 mínútur og u.þ.b. 5-8 mínútur eru á milli allra mynda þar til tilbúið möndlusmjör er komið í lokin. Eftir um 10 mínútur þarf að stoppa matvinnsluvélina mjög ört til að skafa úr hliðunum. Smá olíu er bætt út í eftir þörfum á leiðinni.


Tilbúið möndlusmjör

Innihald

1 bolli möndlur, lagðar í bleyti og ristaðar

1 - 2 msk olía (t.d. ólífuolía eða kókosolía)

Ef vill:

salt

sætuefni, t.d. hlynsýróp, hunang eða önnur sæta.


Aðferð

  1. Leggið möndlurnar í bleyti í a.m.k. 8 klst. Hellið vatninu af þeim og skolið möndlurnar vel.

  2. Dreifið úr möndlunum á bökunarplötu og hitið í ofni við 150°C í 10-20 mínútur eða þar til möndlurnar gefa frá sér ilmandi "ristaða" lykt (passið að hita þær nógu lengi svo þær séu alveg orðnar þurrar).

  3. Leyfið möndlunum að kólna og setjið þær svo í matvinnsluvél ásamt 1/2 msk olíu.

  4. Látið matvinnsluvélina vinna og stoppið reglulega þegar þörf er á til að skafa úr hliðunum. Bætið smátt og smátt olíu saman við. Fylgist vel með vélinni og passið að hún fari ekki að erfiða eða að allar möndlurnar séu komnar upp í kanta á skálinni. Eftir u.þ.b. 10 mínútur þurfti ég að stoppa vélina á 10 sekúndna fresti til að skafa.

  5. Þegar möndlurnar eru búnar að vinnast í um það bil 20 mínútur breyta þær snöggt um áferð og verða allt í einu að möndlusmjöri.

  6. Geymist í krukku í ísskáp.

bottom of page