top of page

Kryddaðar hnetur

Mig langaði í eitthvað nart eftir matinn, en vildi ekki fara í sætindi. Ég átti til brownies sem ég gerði um daginn, en vantaði eitthvað annað bragð. Ég fékk hugmynd um að prófa að gera kryddaðar hnetur, nokkurs konar bjórhnetur og skellti þá í þessar.


Kryddaðar hnetur

Útkoman varð ilmandi bragðsterkt hnetumix sem ég átti erfitt með að standast. Ég notaði hnetumixið sem ég kaupi í Costco, en týndi að sjálfsögðu heslihneturnar frá, þar sem mér finnst þær betri í annars konar formi.


Hnetumix

Krukkan er að verða búin og mikið af hnetunum voru pistasíu kjarnar og möndlur án hýðis. Einhverjar brasilíu hnetur, kasjú hnetur, macadamia hnetur og valhnetur leyndust líka með í mixinu.


Ég notaði Frank's Red Hot orginal sósu sem ég náði mér í í útlandinu fyrir skemmstu. Ég hef ekki séð þessa tegund af Frank's hér á landi en það þarf ekki endilega að þýða að hún sé ekki til. Hér á Íslandi hef ég bara séð Buffalo útgáfuna af Frank's en hún er ekki paleo á meðan orginal er það.


Kryddaðar hnetur á leið í ofninn

Þetta var frekar einfalt hjá mér og ég veit að þetta er eitthvað sem hægt er að gera fljótlega aftur. Eins og ég sagði áðan þá var útkoman ilmandi og bragðsterk og var nákvæmlega það sem ég var að leita eftir.


Kryddaðar hnetur

Innihald

1 bolli hnetublanda (t.d. pistasíu kjarnar, kasjú hnetur, hýðislausar möndlur o.fl.)

1 msk ólífuolía

1 msk Frank's Red Hot orginal sósa (fyrir þá sem eru ekki að eltast við paleo má nota Buffalo sósuna)

1/2 tsk cayenne pipar

1/4 tsk cumin (broddkúmen)

1/4 tsk hvítlauksduft

salt


Aðferð

  1. Hitið ofninn í 175°C.

  2. Blandið öllum innihaldsefnum saman í skál og hrærið vel saman.

  3. Dreifið úr hnetunum á bökunarplötu og bakið í 15 - 20 mínútur, þar til hneturnar eru orðnar dökkar og kryddið hefur þornað.

bottom of page