top of page

Fljótlegt brauð, tilbúið á 90 sek

Ég er búin að vera með þörf fyrir brauð undanfarna daga. Ég nennti samt ekki að baka heilt brauð sem ég myndi geyma lengi og sem myndi nota allt upp í 5-6 egg. Þá kom þessi fína uppskrift upp í hendurnar á mér og ég er búin að gera hana tvisvar síðan. Brauðið er hægt að nota sem hamborgarabrauð, sem kvöldverðarbrauð eða sem snarl á milli mála.

Brauð í örbylgjuofni

Það kom mér á óvart hversu vel brauðið kom út miðað við að það er bakað í örbylgjuofni. Ég bjóst ekki við að þetta kæmi vel út né að það geymdist vel. Ég hafði rangt fyrir mér með bæði atriði því þetta brauð bragðast ekki bara vel, það geymist líka vel.



Brauðið verður ótrúlega létt og loftkennt og alls ekki eins og mörg önnur paleo/hveitilaus brauð verða, þétt í sér og þung. Ég er búin að nota svona brauð fyrir hamborgara, fyrir steikarsamloku, kjúklingasamloku og í morgunmat með sultu.


Kjúklingasamloka

Í nær öll tilfellin hefur nægt mér að nota helminginn af brauðinu og því endist það lengur en ætla skyldi. Brauðið eldaði ég í stórum bolla og verður mitt brauð því af ágætri stærð en ef þú átt bara milli bolla, þá verður brauðið einfaldlega minna um sig en þú getur fengið fleiri sneiðar úr því.


Steikarsamloka

Bæði kjúklingasamlokan og steikarsamlokan voru afgangsmatur, þar sem ég var að nýta afganga frá deginum áður. Þessar máltíðir gáfu þeim fyrri ekkert eftir í bragði og nýttu matinn vel.


Fljótlegt brauð pinterest

Innihald

1 egg

1/3 bolli möndluhveiti

2,5 msk ólífu olía

1/2 tsk lyftiduft

smá salt


Aðferð

  1. Þeytið eggið með handþeytara þar til það er létt og ljóst (þetta er miklvægt til að brauðið verði loftkennt).

  2. Blandið öðrum innihaldsefnum varlega saman við þeytta eggið.

  3. Smyrjið örbylgjuheldan bolla með olíu (ég nota kókosolíu).

  4. Hellið deiginu í bollann og setjið í örbylgjuofn í 1,5 mínútu.

  5. Látið bollann kólna örlítið og hvolfið svo brauðinu úr.

  6. Skerið í hæfilegar sneiðar og njótið.

bottom of page