top of page

Kjúklinga Enchilada réttur

Ég hef áður skrifað um það að á úrslitadegi HM í fótbolta karla var okkur boðið í pálínuboð í bústað til að horfa á leikinn. Ég fékk hugmynd að gera einhvern góðan eftirrét og fann frábæra uppskrift að þessum kókosbitum sem ég skrifaði um hér. Ég vildi líka hafa einhvern mat með og ákvað því að gera eitthvað einfalt í hægeldunarpottinum okkar, eitthvað sem þyrfti ekki mikið að hugsa um, eitthvað sem ég gæti bara hent í pottinn og látið malla, helst yfir nóttina. Úr varð þessi gómsæti enchilada réttur með kjúklingabringum.


Enchilada kjúklingaréttur

Eldun í hægeldunarpottinum tekur kannski langan tíma, en undirbúningurinn er yfirleitt fljótlegur þar sem öllum innihaldsefnum er einfaldlega hent í pottinn og hann stilltur á tíma. Eftir það þarf ekkert að spá í matnum fyrr en tíminn er búinn og þá er bara að njóta.


Í týpískum mexíkóskum enchilada rétti væru trúlega einhverjar tegundir af baunum eða korni, til dæmis nýrnabaunir, gular baunir (korn) eða pinto baunir. Allt þetta er ekki paleo vænt og að auki fara baunir ekki vel í magann á mér. Ég er hæst ánægð með að sleppa þeim og finnst rétturinn ekki síðri fyrir vikið.


Ég bar fram tortillur og sýrðan rjóma með fyrir aðra, en sjálf borða ég réttinn eins og pottrétt, með engum tortillum eða sýrðum rjóma. Einnig er hægt að hafa rifinn ost með fyrir þá sem eru ekki að fylgja paleo mataræði eða ferskt koriander og avocado fyrir paleo fólkið.


Pinterest mynd

Innihald

800 gr kjúklingabringur

1 laukur, saxaður

1 rauð paprika, söxuð

1,5 dós tómatar í dós (hálfa dósin maukuð vel, heila dósin maukuð létt)

1 lítil dós tómatpaste (70 gr)

100 gr jalapenos (u.þ.b. hálf krukka)

3 marin hvítlauksrif

1 msk cumin (broddkúmen)

1/2 msk chili duft

2 tsk oreganó

salt og pipar

1-2 msk ferskt koríander (eða 1/2 - 1 msk þurrkað ef ferskt er ekki til)

Avocado


Aðferð

  1. Leggið kjúklingabringurnar í botninn á hægeldunarpottinum.

  2. Saxið lauk og papriku og setjið yfir kjúklinginn.

  3. Maukið tómatana í dós skv. innihaldslýsingu að ofan og setjið ofan á kjúklingabringurnar og grænmetið.

  4. Setjið afganginn af innihaldsefnum ofan á og hrærið létt í sósunni ofan á kjúklingnum.

  5. Stillið á lágan hita í 10 klst eða háan hita í 5 klst.

  6. Þegar rétturinn er tilbúinn notið þá gaffla til að rífa kjúklingabringurnar í sundur og blandið öllu vel saman.

  7. Berið fram með fersku kóríander og avocado.

bottom of page