top of page

Vefjur

Ég hef áður gert tortilla vefjur úr kókoshveiti. Þær voru bragðgóðar, en voru ekki hentugar til að vefja utan um matinn. Þessar vefjur eru algjörlega þar.


Vefjur úr möluðum hörfræjum

Og ekki bara það, þær eru einstaklega bragðgóðar og einfaldar í gerð. Einu innihaldsefnin eru möluð hörfræ, vatn og salt. Ég held að ég sé búin að finna nýja uppáhalds uppskriftina mína.



Vefjurnar hafði ég með taco máltíð þegar aðrir fjölskyldumeðlimir borðuðu venjulegar búðarkeyptar tacoskeljar. Ég notaði svo afgang af herlegheitunum daginn eftir í morgunmat og skellti einu spældu eggi yfir. Mmmm, það var gott líka. En kvöldmaturinn í taco búningi ekki síðri.



Auðvitað gerði ég heimagert guacamole, sem þið getið séð hér. Ég elska mexíkóskan mat. Ég sleppi sýrða rjómanum og ostinum, en ef ég vil dekra við mig fæ ég mér ost og set jafnvel laktósafría AB mjólk eða gríska jógúrt í staðinn fyrir sýrða rjómann. Í þetta sinn tók ég enga sénsa þar sem ég er búin að vera slöpp í maganum og langt hlaup framundan.



En vindum okkur í uppskriftina og sjáum hversu einfalt þetta er.


Innihald

Fyrir 5 vefjur

1 bolli mulin hörfræ (ég notaði ljós, mulin hörfræ frá Bob's Red Mill). Ef þú átt ekki mulin hörfræ er hægt að mala þau í kaffi malara eða í kröftugum blandara sem ræður við það. Hægt er að nota bæði ljós og dökk.

2/3 bolli vatn

smá salt


Aðferð

  1. Látið vatnið og saltið í pott og komið upp suðu.

  2. Þegar saltið hefur blandast alveg við vatnið, setjið þá muldu hörfræin út í og hrærið með sleif. Takið af hitanum.

  3. Hrærið með sleifinni þar til deig myndast og kælið svo.

  4. Þegar deigið er orðið nógu kalt til að handleika, skiptið því þá í 4 jafnstóra hluta og rúllið hverjum hluta í kúlu.

  5. Fletjið hverja kúlu út á milli bökunarpappírs (bökunarpappír undir og bökunarpappír yfir) með kökukefli.

  6. Hafið vefjurnar þunnar, hæfilegt er að geta rétt séð móta fyrir höndinni í gegnum vefjuna.

  7. Leggið disk eða skál af hæfilegri stærð ofan á og skerið kantana frá svo að vefjan verði kringlótt. Safnið afskurðinum saman og notið í síðustu vefjuna.

  8. Steikið hverja vefju á pönnu í 30 sek til 1 mín á hvorri hlið þar til þær eru eldaðar og gullinbrúnar.

  9. Geymast í lofttæmdu íláti í ísskáp í viku. Einnig má frysta vefjurnar.

bottom of page