top of page

Brauð úr kókoshveiti og möluðum hörfræjum

Það er langt síðan ég hef gert brauð. Ef brauðlöngunin hefur gripið mig, þá hef ég leitað í 90 sekúndna örbylgjubrauðið. Í gær áttum við hins vegar von á gestum og við ætluðum að bjóða upp á smá kaffi.



Við keyptum steinbakað hveitibrauð en mig langaði líka í brauð og vissi af því að tvær konur af gestunum höfðu verið að prófa sig áfram með lágkolvetnafæði. Þar sem ég á svo mikið kókoshveiti var það eina skilyrðið við leitun að uppskrift.


Brauð úr kókoshveiti og möluðum hörfræjum

Uppskriftin leit vel út og eftir vefjurnar um daginn, þar sem notast var við möluð hörfræ ákvað ég að prófa hana. Það er skemmst frá því að segja að brauðið heppnaðist mjög vel og var almenn ánægja með það, enda létt og ljóst og alls ekki mjög þétt eins og hveitilaus brauð verða oft.



Einhver smá afgangur varð af brauðinu og því á ég til góða í ísskápnum nokkrar sneiðar sem ég get notið næstu daga. Þetta brauð má líka frysta og mun ég örugglega gera það ef ég á mikinn afgang næst.


Brauðið var líka nokkuð einfalt í gerð, þó ég hafi trúlega flækt ferlið aðeins. Mér finnst alltaf betra að þeyta eggin vel áður en þurrefnum er blandað saman við, til að fá loftkenndari og léttari afurð, en einnig er hægt að skella öllum innihaldsefnum saman í blandara/matvinnsluvél og vinna saman. Því setti ég leiðbeiningarnar í tvennu lagi; fyrir þann vandláta og fyrir þann lata!


Innihald

1/2 bolli kókoshveiti

1/3 bolli möluð hörfræ (ef þú átt bara heil má mala þau með því að setja í kaffimalara eða öflugan blandara sem ræður við verkið)

1/4 bolli tapioca sterkja (fyrir þá sem fylgja ekki paleo er hægt að skipta út fyrir kartöflusterkju eða maizena mjöl)

1/2 tsk salt

4 egg

1/2 bolli ólívu olía eða önnur bragðlaus olía

1/3 bolli mjólk að eigin vali (ég notaði ósæta möndlumjólk úr fernu)

sesamfræ (eða hörfræ) til að strá ofan á


Aðferð

  1. Hitið ofninn í 190°C.

  2. Þekið brauðform með bökunarpappír.

  3. Fyrir þann lata: Skellið öllum innihaldsefnum saman í blandara eða matvinnsluvél og blandið vel saman. Haldið áfram frá skrefi nr. 7 hér að neðan.

  4. Fyrir þann vandláta: Þeytið eggin í skál þar til þau eru létt og ljós.

  5. Blandið þurrefnum saman í annarri skál.

  6. Hellið þurrefnunum út í eggin ásamt olíunni og mjólkinni. Blandið varlega saman.

  7. Hellið deiginu í formið og stráið sesamfræjunum (eða hörfræjunum) yfir.

  8. Bakið í 25-30 mínútur eða þar til pinni sem stungið er í brauðið kemur hreinn út.

  9. Látið brauðið kólna í smá stund áður en það er tekið úr forminu.

  10. Geymist í ísskáp í loftþéttum umbúðum í viku.

bottom of page