top of page

Kalkúnahakkbollur

Þegar ég gerði eggjabökuna um daginn, sjá uppskrift hér átti ég svolítinn afgang af kalkúnahakki sem ég þurfti að finna not fyrir. Ég hafði stuttu áður séð póst um kalkúnahakkbollur í einum hópnum sem ég er í á Facebook og ákvað að prófa mína eigin útgáfu.


Kalkúnahakkbollur

Kalkúnahakk er ódýr matur og mér finnst það mjög gott. Þessar bollur ákvað ég að gera einnig í því miði að eiga í frysti fyrir hádegismat í tilvonandi vinnu. Þá get ég útbúið grænmeti og tekið 2 bollur með mér að morgni.



Bollurnar eru mildar á bragðið og hægt er að krydda þær að vild til að auka bragðið. Ég ákvað einnig að setja smá möluð hörfræ í mínar bollur til að auka hollustuna, en þeim má að sjálfsögðu sleppa.



Hakkbollurnar haldast vel saman með egginu, möndlumjölinu og möluðu hörfræjunum og verða eins og alvöru kjötbollurnar hennar mömmu!


Innihald

400 gr kalkúnahakk

1 egg

1 hvítlaukslauf

1/4 smátt saxaður laukur

2-3 msk möndlumjöl

2 msk möluð hörfræ (má sleppa og auka möndlumjölið)

túrmerik

oregano

dill

salt og pipar


Aðferð

  1. Blandið öllum innihaldsefnum vel saman í skál.

  2. Hitið ofninn í 175°C.

  3. Mótið hæfilega stórar bollur með skeið og steikið á pönnu. Brúnið bollurnar á hvorri hlið og setjið svo í ofnfast mót og inn í heitan ofninn í u.þ.b. 10 mínútur eða þar til bollurnar eru steiktar í gegn.

bottom of page