top of page

Gulrótarkaka með kasjúhnetu"osta"kremi

Ég trúi því ekki að ég hafi gleymt að skrifa um þessa dásemd! Gulrótarkakan sem ég gerði fyrir 3 vikum og tók með í mat til mömmu heppnaðist alveg einstaklega vel en einhverra hluta vegna enduðu myndirnar og uppskriftin í gleymskubankanum og ég áttaði mig bara á því í gær þegar ég var að rifja upp hversu góð hún var að ég var ekki búin að skrifa um hana hér.



Úr því skal nú bætt hið snarasta og ég mun deila hér með ykkur afrakstri mínum í þessari deildinni.


Kakan varð alveg einstaklega mjúk og rök og mér fannst rúsínurnar alveg gera gæfumuninn. Maðurinn minn er ekki hrifinn af rúsínum í mat en gat auðveldlega sneitt hjá þeim en honum fannst kakan alveg yndisleg, eins og öðrum gestum sem gæddu sér á henni.



Þessi kaka gefur bakarískeyptum hveitikökum ekkert eftir í bragðgæðum að ég tali ekki um hversu miklu hollari hún er. Ég notaði tvö kringlótt smelluform úr IKEA sem eru 21 cm að þvermáli.


Innihald

4 egg við stofuhita

1/2 bolli hlynsýróp

1/3 bolli fljótandi kókosolía (bræðið olíuna, en passið að hún sé ekki heit)

1/4 bolli möndlumjólk eða önnur mjólk að eigin vali

1 msk epla edik

2 tsk vanilludropar

1 1/4 bolli möndlumjöl

1/4 bolli kókoshveiti

1/3 bolli tapioca sterkja (eða önnur sterkja eins og kartöflumjöl, ekki paleo)

1 tsk matarsódi

1/4 tsk salt

1,5 msk kanill

1/2 tsk malað engifer (engifer krydd)

smá múskat

2,5 bolli rifnar gulrætur

1/2 bolli rúsínur



Krem:

1,5 bolli kasjúhnetur (ósaltaðar og hráar)

2/3 bolli kókosrjómi, kældur (þykki hlutinn af kókosmjólk úr dós)

2,5 msk sítrónusafi

2 msk kókosolía (ekki bráðin)

2 tsk vanilludropar

4-6 msk hunang

svolítið gróft salt

Pecan hnetur til skrauts


Aðferð

ATH kasjúhneturnar þurfa að liggja í bleyti í a.m.k. 4 klst áður en kremið er gert!

  1. Hitið ofninn í 175°C og þekjið tvö 21 cm kringlótt smelluform með bökunarpappír.

  2. Blandið þurrefnum saman í skál og leggið til hliðar.

  3. Þeytið eggin í annarri skál þar til þau eru ljós og létt og bætið svo sýrópi, mjólk, kókosolíu, ediki og vanilludropum varlega út í.

  4. Blandið þurrefnum saman við þau blautu og hrærið vel.

  5. Blandið gulrótum og rúsínum varlega saman við.

  6. Hellið deiginu jafnt í formin tvö og bakið í u.þ.b. 25 mínútur eða þar til deigið er bakað.

  7. Látið kólna í formunum í hálftíma áður en botnarnir eru losaðir úr þeim og kælið svo áfram þar til þeir eru alveg kaldir og hægt er að setja kremið á.

  8. Smyrjið kremi á milli botna og ofan á og skreytið með söxuðum pecan hnetum.


Krem:

  1. Leggið kasjú hneturnar í bleyti í a.m.k. 4 klst áður en hafist er handa.

  2. Skolið hneturnar og þurrkið þær létt.

  3. Maukið hneturnar í matvinnsluvél eða blandara þar til þær eru orðnar að mjúku mauki, skafið úr hliðum eftir þörfum.

  4. Bætið afganginum af innihaldsefnum saman við og blandið þar til allt er orðið að silkimjúku kremi.

  5. Kælið kremið í ísskáp ef þarf, svo auðveldara sé að setja það á kökuna.

  6. Kremið geymist í lokuðu íláti í viku í ísskáp.

bottom of page