top of page

Kjúklingasúpa

Í vikunni gerði ég kjötkraft, sem mér finnst reyndar varla vera réttheiti og vil kalla þetta beinakraft. Ég hef áður gert beinakraft, en þá sýð ég kjúklingahræ ásamt smá af grænmeti í langan tíma og sía svo vökvann frá. Beinakraftur (kallað bone broth á ensku) er talinn hafa heilandi áhrif á þarmana og er mikið notaður af fólki sem á í alls kyns vandræðum með meltinguna.


Kjúklingasúpa úr beinakrafti

Ég hef einu sinni áður gert beinakraftinn og heppnaðist hann mjög vel hjá mér í það sinn. Galdurinn er að soðið sem kemur af beinakraftinum á að hlaupa í gel ef vel tekst til. Það gerðist í fyrsta sinn hjá mér, en ekki núna. Ekki veit ég hvað fór úrskeiðis en soðið var engu að síður gott og ég ákvað að nota það að miklum hluta í kjúklingasúpu. Ég hef ekki enn gert innlegg um beinakraft en í mjög fljótlegri og einfaldri útskýringu set ég afganga af heilum kjúklingum (kjúklingahræ) ásamt lauk, gulrótum, hvítlauk og lárviðarlaufum í pott og læt vatn fljóta vel yfir. Ég nota hægeldunarpottinn minn, en einnig er hægt að nota venjulegan pott á eldavél. Stilli pottinn á lágan hita í 12-24 tíma og læt allt sjóða saman. Svo sía ég kjötið og grænmetið frá og hendi því, soðið nota ég svo á ýmsan hátt. Ég hef fryst það í klakaformi til að eiga í litlum skömmtum en geri líka súpur á við þessa hér.


Reyndar vakti súpan svo mikla lukku hjá fjölskyldumeðlimum að rifist var um afgangana. Aðrir fjölskyldumeðlimir bættu sýrðum rjóma, osti og snakki út í eins og um alvöru mexíkóska súpu væri að ræða, en ég naut hennar án þess og vil ég fullyrði að hún var ekki síðri svoleiðis.



Í súpuna er hægt að nota tómata úr dós, en ég átti nóg af ferskum tómötum og ákvað að nota þá líka. Súpan varð því alveg eins fersk og holl og hún gat verið. Ég notaði líka afgang af kjúklingi sem hafði verið í matinn daginn áður og því er kjörið að nota þessa súpu úr afgöngum.


Ég ætla að reyna að rifja upp og skrá niður hvernig hún kom úr erminni hjá mér.


Innihald

U.þ.b. 400 gr kjúklingakjöt, kjörið að nota afgang af kjúkling

5 dl kjötsoð (eða beinakraftur)

5 ferskir tómatar (eða 1 dós niðursoðnir tómatar)

1/2 sæt kartafla

1/2 laukur

2 hvítlaukslauf

koríander

malað engifer (krydd)

cumin

salt og pipar

cayenne pipar

olía til steikingar


Aðferð

  1. Skerið kjúklinginn í hæfilega bita og geymið til hliðar.

  2. Skerið laukinn í grófa bita, merjið hvítlaukinn og skerið sætu kartöfluna í teninga.

  3. Mýkið laukinn og hvítlaukinn í olíu í stórum potti.

  4. Bætið soðinu út í og svo sætu kartöflunum.

  5. Maukið tómatana í matvinnsluvél þar til þeir eru alveg maukaðir.

  6. Bætið tómötum út í og kryddið eftir smekk.

  7. Ef kjúklingurinn er ferskur má setja hann út í strax. Ef kjúklingurinn er afgangskjúklingur og er þegar eldaður, bíðið þá með að setja hann út í þar til 10 mínútur eru eftir af eldunartíma súpunnar.

  8. Sjóðið súpuna í 30-40 mínútur. Súpan verður einungis betri eftir því sem hún sýður lengur.

bottom of page