top of page

Súkkulaðiís

Sonur minn er forfallinn aðdáandi súkkulaðiíss. Helst vill hann súkkulaðiís með súkkulaðisósu og ef hann fengi að ráða myndi hann borða það í eftirrétt á hverjum degi. Mig langaði að útbúa hollari kost fyrir hann svo að við myndum ekki alltaf þurfa að neita honum og hefðum minna samviskubit yfir því að leyfa barninu að borða ís mörgum sinnum í viku.


Súkkulaðiís

Ekki er verra að ég get notið íssins líka enda finnst mér ekkert leiðinlegt að ljúka máltíðinni með einhverju sætu. Ég hef áður gert ís með kókosmjólk úr dós og frosnum berjum og ávöxtum, sjá uppskriftir að ísum hér.


Súkkulaðiís

Í ísgerðina mína notast ég yfirleitt við kókosmjólk úr dós. Hún er hæfilega feit til að veita rjómakennt bragð og hún er líka bragðgóð. Eini gallinn við kókosmjólkina er hversu hörð hún verður þegar hún er frosin og því verður alltaf að taka ísinn tímanlega úr frysti áður en á að borða hann.


Mjólkurlaus ís úr kókosmjólk úr dós er ótrúlega einfaldur að gera. Í þessu tilfelli notaðist ég við ísvél og verður ísinn loftkenndari og léttari við það. Það má þó alveg sleppa ísvélinni.


Innihald

1 dós kókosmjólk úr dós

2 frosnir bananar (skornir í bita fyrir frystingu)

1/4 bolli kakóduft (má vera meira)

1,5 tsk vanilludropar

2 msk hlynsýróp


Aðferð

  1. Leyfið bönununum að þiðna aðeins svo að matvinnsluvélin ráði við þá.

  2. Setjið öll innihaldsefnin í matvinnsluvél og maukið saman þar til engir bitar eru eftir af bönununum.

  3. Bætið við kakói eða sætu eftir smekk.

  4. Setjið í ísvél eða beint í frysti.

  5. Taka þarf ísinn úr frysti tímanlega áður en borða á hann þar sem kókosmjólkin harðnar mjög við kælingu.

bottom of page