top of page

Kókosjógúrt

Að gera kókosjógúrt er eitthvað sem ég er búin að vera með í kollinum í langan tíma. Ég prófaði þetta fyrir nokkru síðan en það tókst ekki nógu vel og því skrifaði ég ekki póst um það. Hvað sem því líður ákvað ég nú að prófa á ný og nota önnur innihaldsefni.


Hrein kókosjógúrt

Ég held að við getum verið sammála um að hefðir á Íslandi fyrir alls konar mjólkurmat eru mjög sterkar og því er það eitt það erfiðasta sem ég gerði þegar ég sleppti mjólkurvörum að vera án jógúrts og skyrs.



Öðru hvoru leyfi ég mér að stelast í Örnu laktósafríu vörurnar og það er gott að geta gripið í þær, en ég finn að þó að þær fari ekki í magann á mér, þá eykst slímmyndun hjá mér til muna við að borða þær og þá er betra að vera alveg án þeirra.


Kókosjógúrt með berjabragði

Í þetta sinn var ég með aðra tegund af góðgerlum og örugglega aðra tegund af kókosmjólk, en ég man það þó ekki vel. Ferlið heppnaðist miklu betur í þetta sinn þó ég hafi í byrjun haldið að svo væri ekki. Áferðin varð að vísu ekki best, jógúrtin varð mjög kornótt, en bragðið var gott og eftir að ég hafði unnið jógúrtina í blandara með heimagerðri sultu varð áferðin mun betri.



Lærdómurinn varð sá að ekki dæma jógúrtina of fljótt og leyfa henni að sitja aðeins lengur. Þetta er þolinmæðisverk og krefst þess að bíða í góðan tíma. Aðferðin sjálf er þó sáraeinföld og ekki flókin í framkvæmd. Afraksturinn verður mjög súr jógúrt, eins og hrein jógúrt á til, og þá er um að gera að leyfa hugmyndaraflinu að leika lausu og finna upp á einhverju góðu til að bragðbæta með. Í þetta sinn hjá mér varð blönduð berjasulta fyrir valinu, sjá uppskrift hér.



Kostnaðurinn er ekki mikill heldur og hollustustigið miðað við venjulega búðarkeypta jógúrt er margfalt. Ein dós af Gestus kókosmjólk úr Krónunni kostar 219 kr og viðbótar bragðefni er í svo litlu mæli að það er varla til að tala um í kostnaði. Þó eru góðgerlarnir nokkuð dýrir en þar sem ég tek þá hvort eð er á hverjum degi og á þá alltaf til, þá tel ég það ekki eftir mér að taka eitt og eitt hylki í þetta. Úr einni dós af kókosmjólk fæst jafngildi rúmlega tveggja jógúrtdósa og því er kostnaðurinn rétt rúmlega 100 kr pr skammtur.


Við val á góðgerlum er mikilvægt að þeir séu með Lactobacillus acidophilus og Bifidobacterium bifidum. Í fyrri tilraun minni notaði ég Acidophilus hylki með gulum miða en það skilaði ekki eins góðum árangri og þetta sinn þegar ég notaði Progastró gull. Hér kemur einfalda uppskriftin:


Innihald

1 kókosmjólk úr dós (ekki fitulítil)

1 hylki af góðgerlum (sjá athugasemd hér fyrir ofan)

Bragðbætir að vild, t.d. berjasulta, hunang eða annað


Aðferð

  1. Opnið hylkið af góðgerlunum og blandið saman við innihald kókosmjólkurdósarinnar í skál.

  2. Hrærið vel í.

  3. Geymið í lokuðu íláti við stofuhita í 24-48 klst. Gott er að hræra öðru hvoru.

  4. Þegar jógúrtin hefur náð æskilegri gerjun færið þá í ísskáp. Jógúrtin þykknar í ísskáp.

  5. Athugið að jógúrtin kann að lykta súr, en það er einmitt eðli jógúrtar. Hafið hugfast að útkoman verður ósæt, hrein kókosjógúrt.

  6. Blandið með bragðefnum að vild, t.d. hreinu hunangi, berjum, berjasultu, heslihnetusúkkulaðismjöri eða hverju því sem hugurinn girnist.

  7. Ef jógúrtin verður kornótt eða kekkjótt má setja hana í blandara og vinna hana vel.

bottom of page