top of page

Graskersbaka - Pumpkin Pie

Þá er Hrekkjavakan gengin í garð og hátíðin að festa sig í sessi hér á Íslandi. Við hjónin héldum hrekkjavökuna hátíðlega ásamt mörgum nágrönnum í hverfinu okkar og eitt af því sem við gerðum var að kaupa grasker til að skera út og nota í skreytingar. Sem hluti af paleo lífstíl mínum er að nota mat vel og því vildi ég nota graskerið til eldunar auk þess að nota það sem skraut. Ég vann graskerskjötið úr graskerinu og ákvað að búa til graskersböku og graskerssúpu.


Graskersbaka

Þetta var góður lærdómur fyrir mig þar sem ég hafði aldrei unnið með grasker áður. Leiðbeiningar um verkun graskersins má finna í þessum pósti hér og uppskriftina að súpunni hér.


Graskersbakan heppnaðist mjög vel þrátt fyrir efasemdir mínar. Fyllingin í bökuna var mjög blaut og lin þegar hún fór í bökunni inn í ofninn en með þolinmæði bakaðist hún þó alveg mátulega og útkoman var æðisleg.



Uppskriftin er samanbland og uppspuni úr mér og frá nokkrum öðrum uppskriftum sem ég fann. Ég var einstaklega ánægð með botninn, en hann má nota í hvers kyns bökugerð.



Það var auðvelt að vinna með botninn og hann varð alveg mátulega stífur og mjúkur. Mikilvægt er að baka botninn ekki áður en graskersbakan er gerð, þar sem bökunartími graskersbökunnar er svo langur og botninn myndi þá ofbakast. Ég get ekki fullyrt ef botninn er notaður í aðrar bökur hvort betra sé að baka hann örlítið áður.



Þeir gestir sem smökkuðu graskersbökuna voru allir hrifnir af henni. Ég átti svo afgang sem ég skipti niður í smærri sneiðar og frysti. Ég á þá til smá glaðning til að fá mér öðru hvoru.


Innihald

Botninn

2 bollar möndlumjöl

2 msk kókossykur

1/3 bolli kókosolía, við stofuhita (þ.e. stíf)

smá salt

1 egg


Fyllingin

2 bollar graskersmauk (sjá leiðbeiningar hér)

1/2 bolli kókosmjólk úr dós

2 egg

1/2 bolli hunang

1/2 tsk salt

1 msk kanill

1/2 tsk malað engifer

1/2 tsk múskat

1/2 tsk malaður negull


Aðferð

Botninn

  1. Möndlumjöli, kókossykur, salti og kókosolíu bland að saman í höndunum í skál. Vinnið kókosolíuna saman við mjölið svo að allt sé vel blandað.

  2. Þeytið eggið og blandið því svo saman við.

  3. Þrýstið deiginu í botninn á pæ formi og jafnið vel þannig að deigið nái upp á hliðar formsins.

  4. Kælið deigið á meðan fyllingin er búin til. Ef nota á botninn strax er gott að setja hann í frysti, annars má geyma hann í ísskáp yfir nótt.

Fyllingin

  1. Hitið ofninn í 220°C.

  2. Öllum innihaldsefnum blandað saman í matvinnsluvél/blandara og unnið vel saman.

  3. Hellið fyllingunni í botninn og bakið í 10 mínútur við 220°C.

  4. Kælið ofninn niður í 175°C og bakið áfram þar til fyllingin hefur bakast að fullu, u.þ.b. 30-40 mínútur. Bakan er tilbúin þegar prjónn sem stungið er í hana miðja kemur hreinn út.

  5. Kælið bökuna, helst yfir nótt. Bakan geymist í ísskáp og má frysta. Bakan er best ef hún er látin standa yfir nótt, bragðið færist úr fyllingunni yfir í botninn.




bottom of page