top of page

Graskerssúpa

Þegar Hrekkjavakan gekk í garð og ég ákvað að prófa að gera graskersböku í fyrsta skipti gerði ég mér grein fyrir að trúlega yrði svo mikill afgangur af graskerinu að best væri að útbúa súpu í kvöldmat kvöldið fyrir hrekkjavökuna. Úr varð þessi fína súpa sem ég átti afgang af í marga daga.


Súpan var uppspuni úr mér en ég byggði á reynslu minni af því að gera butternut squash súpur. Hún var ekki ósvipuð í gerð, en bragðið er annað. Grasker er nátengt haustinu og miklu kryddi. Kanill, múskat og negull eru helstu kryddin sem mikið eru notuð með hinum ýmsu réttum sem nota grasker.


Fyrir leiðbeiningar um hvernig best er að verka graskerið getið þið skoðað þennan póst hér. Einnig er hér póstur um graskersböku, sem var aðalatriðið þessa hrekkjavökuna.


Ég svindlaði frá paleo mataræðinu og setti laktósafrían rjóma, en hæglega má nota kókosrjóma í staðinn. Beikonið er ómissandi í súpuna, þó að ég hafi alveg notið afgangana án þess líka.


Kryddið þarf ekki að spara og gerir það þessa haustsúpu að ilmandi og heitu lostæti.


Innihald

2-3 bollar graskersmauk, sjá aðferð hér

2-3 gulrætur

1 laukur

1/2 sæt kartafla

1-2 hvítlausrif

2 cm ferskt engifer

1/2 chilli ferskur pipar (má sleppa)

5-8 dl kjúklingakraftur

1 dós kókosmjólk

4 teningar beinakraftur ef til er (má sleppa)

1 tsk malað kóríander

2 tsk túrmerik

1 tsk malað cumin

1 tsk múskat

salt og pipar


Aðferð

  1. Hitið ofninn í 170°C og skerið grænmetið (fyrir utan graskerið) í gróf stykki/bita

  2. Bakið grænmetið í ofninum þar til mjúkt og tilbúið. Kælið.

  3. Þegar grænmetið hefur fengið að kólna er það maukað í matvinnsluvél eða blandara þar til mauk er orðið úr.

  4. Öllum innihaldsefnum nema kryddi blandað saman í stórum potti. Magn kjúklingakrafts og kókosmjólkur fer eftir magni graskersmauks og smekk.

  5. Kryddið til og látið sjóða í a.m.k. 15 mínútur, súpan verður betri eftir því sem hún er látin standa lengur.

  6. Berið fram með stökkum beikonbitum og þeyttum rjóma að eigin vali.

bottom of page