top of page

Verkun graskers

Nú er Hrekkjavakan að verða vinsælli hér á landi ár hvert og í hverfinu sem ég bý er komin hefð fyrir því að börnin ganga húsa á milli og boða grikk eða gott. Við höfum haldið hrekkjavökuboð undanfarin ár og er veislan að stækka með hverju árinu sem líður.


Grasker

Eitt af því sem tilheyrir haustinu er breyting á framboði í mat. Annars staðar í heiminum er eitt af því sem verður nóg til af á hausti grasker og því tengjast grasker í svo miklum mæli þeim hátíðum sem haldið er upp á á þessum árstíma.


Grasker hafa ekki verið í boði á Íslandi í mörg ár og við Íslendingar erum rétt að byrja að læra að meðhöndla þau. Í fyrsta skipti nú ákvað ég að nýta graskerið sem við keyptum til að nota í skreytingu á Hrekkjavökunni. Úr varð að ég bjó bæði til graskerssúpu og graskerspæ. Uppskriftina að súpunni má nálgast hér og uppskrift að graskersbökunni hér, en þessi póstur er tileinkaður því hvernig á að verka á graskerið.


Leiðbeiningar um hvernig best sé að skera út graskerið svo úr verði lugt má finna á youtube en hér verður meira gert úr matnum sem graskerið er.


Leiðbeiningar um verkun graskers

  • Til að byrja með skar ég hringlaga í kringum efri brún graskersins og bjó þannig til eins konar "lok" á graskerið.

  • Þá þarf að hreinsa öll fræ innan úr graskerinu. Geymið fræin, þau er hægt að rista og borða sem snarl eða nota út í mat.

Ómeðhöndluð graskersfræ

Graskersfræin má nota í ýmislegt.

  • Ég tók líka mest af þráðunum sem umkringja fræin en einnig má nota það með kjötinu af graskerinu.

  • Ég reyndi nokkrar aðferðir við að fjarlægja kjötið úr graskerinu en þægilegast fannst mér að nota skeið og skafa innan úr því. Kjötið rifnar þá niður og losnar frá í ræmum. Passið að skafa ekki of mikið ef ætlunin er að nota graskerið til skreytingar með kerti. Sérstaklega þarf að fara varlega í kringum opið.

  • Kjötinu safnaði ég saman og bakaði að lokum í ofni við 175°C þar til allt var orðið mjúkt. Ég setti graskerskjötið á ofnplötu með engri olíu. Lengd tímans veltur á hversu þykkir bitarnir af graskerinu eru. Fylgist vel með og passið að það brenni ekki. Allt í lagi er þó einhverjir partar verði brúnir, svo lengi sem þeir brenna ekki.

Hér má sjá hvernig graskerið leit út þegar það kom út úr ofninum.

  • Þegar graskerið er bakað og hefur fengið að kólna á ofnplötunni er kjötið maukað í matvinnsluvél eða blandara þar til það er orðið að mjúku mauki.

Grasker í matvinnsluvél

Mikill vökvi kom af graskerinu og því varð maukið mjög blautt.


Maukið má kæla, frysta eða nota strax, t.d. í súpur og bökur. Ég var búin að ákveða að gera graskersböku en vissi að það yrði svo mikill afgangur af maukinu að ég hafði graskerssúpu í matinn kvöldið fyrir hrekkjavökuna.

bottom of page