top of page

Smákökur

Nú er farið að líða ískyggilega nálægt jólum og þá er gott að geta gætt sér á jólasmákökum. Í gegnum árin hef ég oft ekki bakað mikið, en þó er ein tegund af smákökum sem ég á erfitt með að standast og eru það hnetusmjörssmákökur. Nú voru góð ráð dýr þar sem meiri hluti innihaldsefnanna í smákökunum eru ekki paleovæn. Ég gerði mér þá lítið fyrir og breytti uppskriftinni þannig að ég gæti líka notið hennar. Úr urðu þessar yndislega bragðgóðu og stökku smákökur sem gefa upprunalegu kökunum ekkert eftir.

Ef fólk vill má setja rifið/smátt skorið súkkulaði ofan á. Hér getið þið fundið uppskrift að heimagerðu súkkulaði (eða notað búðarkeypt að eigin vali). Ég ákvað að nota kókoshveiti sem aðaluppistöðuna í þessum kökum, bæði vegna þess að ég á svo mikið af því en ekki síður vegna þess að ef ég borða mikið af möndlumjöli vill það fara illa í meltinguna hjá mér.



Þar sem kókoshveiti drekkur rosalega mikinn vökva í sig bætti ég við einu eggi og setti fyrst mjög lítið af hveitinu í deigið. Ég ákvað einnig að baka kökurnar í stórum muffins formum sem ég átti, til að koma í veg fyrir að þær lækju of mikið út. Það heppnaðist allt mjög vel. Kökurnar komu frekar linar út en ég fjarlægði þær strax úr formunum og lét þær kólna á vírgrind. Ég lét þær einnig standa á borðinu í 1-2 daga áður en ég setti þær í kökuboxið til að fá þær til að verða enn stökkari. Nú skulum við vinda okkur í uppskriftina.


Innihald

110 gr kókosolía við stofuhita

4 msk hlynsýróp

100 kókossykur

110 gr möndlusmjör

1 tsk matarsóti

1/2 tsk salt

2 egg

2 msk kókosmjólk úr fernu (eða önnur mjólkurlaus mjólk)

1 tsk vanilludropar

1/2 bolli kókoshveiti (byrjið rólega og bætið smám saman út í)


Aðferð

  1. Blandið öllu nema kókoshveitinu saman í hrærivél þar til allt er vel blandað saman og kókosolían er ekki lengur í stórum kekkjum.

  2. Setjið kókoshveitið rólega út í í smá skömmtum og bíðið smá á milli. Kókoshveitið dregur mikinn vökva í sig en það tekur smá tíma. Deigið á að vera þykkt og klístrað.

  3. Bakið við 200°C í 10-12 mínútur eða þar til kökurnar verða gullinbrúnar. Kökurnar leka svolítið svo það getur verið gott að setja þær í muffinsform.

bottom of page